- Advertisement -

Dýr kredda Katrínar Jak & Co.

Ríkisstjórn Katrínar Jak horfir aðgerðarlaus á krónuna hríðfalla

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Um áratuga skeið hefur þeirri kreddu verið haldið á lofti af ríkisstjórnum og Seðlabanka að veiking krónunnar skapi aukna atvinnu. Út frá þessu þá hefur krónan hiklaust verið gjaldfelld með einu pennastriki eða henni leyft að tapa erlendum kaupmætti í gegnum vanbúinn íslenskan gjaldeyrismarkað. Þeir flokkar sem lengst hafa verið við völd á Íslandi, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, hafa verið ósparir á að halda ranghugmyndinni lifandi vegna þess að það fellur vel að sérhagsmunum. Svona er þetta enn í dag. Ríkisstjórn Katrínar Jak horfir aðgerðarlaus á krónuna hríðfalla og á viljaleysi Seðlabankans að grípa til eina raunhæfa úrræðisins til varnar krónunni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftir þessa grein hér Jürgen Klopp væri búinn að skipta ríkisstjórninni út af“ þá skrifaði maður að nafni Sigurður Eggertsson athyglisverða athugasemd á Fésbók Miðjunnar. Orðrétt þá sagði hann „Menn virðast alveg búnir að gleyma hvernig krónan hjálpaði til við uppbygginguna eftir hrun“. Samhengið var að veikari króna skapi aukna atvinnu. Kreddan er að öfugt samband sé milli veikari krónu og atvinnuleysis. Skoðun Sigurðar er útbreidd og nær til efstu laga stjórnkerfisins. Ég átti eitt sinn samtal við fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins þar sem við ræddum atvinnuleysið. Ég benti honum á að kreddan væri röng, að hún stæðist ekki nútíma skoðun. Ráðherrann varð bara fúll og lauk samtalinu með þóttafullum svipbrigðum.

Á myndinni sem fylgir þá er að finna tvo ferla frá upphafi árs 2008 og til og með september 2020. Fyrri tímasetningin markar upphaf fjármálahrunsins. Rauða línan og vinstri ásinn sýnir þróun verðs á krónunni gagnvart evru. Því hærra sem línan rís því veikari er krónan gagnvart evrunni. Bláa línan og hægri ásinn sýnir fjöldann í almennu atvinnuleysi á hverjum tíma eins og Vinnumálastofnun mælir það. Því hærra sem línan rís því meira er atvinnuleysið. Samkvæmt kreddu hagfræðinni þá eiga línurnar að ganga að jafnaði í sitthvora áttina. Með öðrum orðum, rísandi rauð lína á að kalla fram lækkandi bláa línu.

Það þarf ekki að rýna línurnar lengi til að átta sig fljótt á að kreddan á sér enga samsvörun í raunveruleikanum. Til að gera langa sögu stutta þá sýna eigin útreikningar að fylgnistuðullinn milli rauðu og bláu línanna er jákvæður upp á 0,75. (Takið eftir að stuðullinn er ekki neikvæður eins og kreddan krefst.) Þetta samsvarar að hreyfing í gengi krónunnar (rauða línan), að öllu öðru jöfnu, skýrir tæplega 57 prósent af hreyfingu atvinnuleysis (bláa línan). Sem sagt, fullyrðing kreddu krónuverja er fallin. Vel má vera að þetta öfuga samband hafi verið til staðar á síðustu öld, en ekki í dag. Samt velja sérhagsmunaflokkar að halda kreddunni lifandi þó hún vinni gegn almannahagsmunum.

Ef við skoðum bláu línuna frá júlí 2017 þá má vera ljóst að atvinnuleysi var vaxandi vandamál löngu áður en kóvídið kom til sögunnar. Athyglisvert er að á sama tíma þá var gengi krónunnar nokkuð stöðugt og eltir í raun aukið atvinnuleysi tafið í tíma. Það er andstætt skilaboðum kreddunnar um samband gengis og atvinnuleysis.

Á kóvíd tímum þá er sama ferli komið í gang og gekk yfir landið í kjölfar fjármálahrunsins. Ef ætlunin er að vinna bug á atvinnuleysinu hraðar en áður þá er leiðin ekki sú að veikja krónuna. Um þetta vitnar árangur Dana, Svía og Norðmanna. Hér verður að hafa almannahagsmuni í forgrunni en ekki þrönga sérhagsmuni fámenns valdahóps í samfélaginu sem trúir á fallnar kenningar.

Tvennt er á annan veg en áður. Það fyrra er að almenna atvinnuleysið nær ekki yfir þá sem eru á hlutarbótum. Hið seinna er að Seðlabankinn hefur verið mjög virkur á gjaldeyrismarkaði með eigin inngrip og það truflar frjálsa verðmyndun krónunnar. Einnig er að bankinn hóf að selja lífeyrissjóðum milljarðatugi á mánuði. Það er seinna tíma mál að rannsaka þessi áhrif. Reynsla mín segir mér að ofangreindur fylgnistuðull sé hærri en áður, kreddan er steindauð.        


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: