- Advertisement -

EES undir í Landsréttarmálinu

Það snýst um ábyrgð og virðingu. Eitthvað sem sumt íslenskt stjórnmálafólk mætti tileinka sér í meiri mæli.

Eftir að hafa lesið grein Rósu Bjarkar Erlendsdóttur í Fréttablaðinu er ég viss um ef íslenska ríkið tapar Landsréttarmálinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu fari Sjálfstæðisflokkurinn í fýlu og vinn að því að við segjum okkur frá öllu sem getur haft áhrif á það sem íslensk stjórnvöld gera.

-sme

Rósa Björk skrifar um mikilvægt hlutverk Mannréttindadómstólsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Það eru því mikil vonbrigði að íslenska ríkið skuli á þessum tímamótum dómstólsins grípa til ítrustu varna og setja mikla fjármuni í að verjast í afar umdeildu máli sem snertir og veikir dómskerfi okkar. Það er skiljanlegt að ríki verji sig og eðlilegt, en munum að dómar Mannréttindadómstólsins eru þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir Ísland sem íslenskir dómstólar hafa ávallt og undantekningarlaust beygt sig undir. Líka þegar íslenska ríkið hefur tapað máli.

Að áfrýja dómsmáli um ólögmæta skipan dómara við Landsrétt til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í stað þess að lúta fyrstu niðurstöðum dómsins, var einfaldlega dapurleg ákvörðun sem jók á réttaróvissu.

Enn dapurlegra er þó þegar stjórnmálamenn, sem virðast nánast eingöngu hugsa um sitt eigið orðspor og stöður, halda opinberlega á lofti málfflutningi sem grefur undan einni af meginstofnunum mannréttinda, laga og reglna sem Ísland á aðild að.

Þess háttar málflutningur stjórnmálamanna sem og að taka til ítrustu varna, er bæði niðurlægjandi fyrir okkur sem aðildarríki Evrópuráðsins en líka fyrir okkur sem viljum láta taka okkur alvarlega sem þróað lýðræðisríki og alvöru réttarríki án beinna afskipta stjórnmálamanna að dómskerfi okkar. Enda sýndi það sig að eini opinberi stuðningurinn við málatilbúnaðinn kom frá Póllandi sem fékk afskaplega hörð tilmæli á Evrópuráðsþinginu fyrir nokkrum dögum vegna afar umdeildra breytinga á dóms- og réttarkerfi sínu sem taldar eru grafa undan lýðræði í Póllandi og réttindum borgaranna þar. Þingið ákvað að fara í eftirlitsferli á Póllandi sem er með þeirri ákvörðun eina ESB-ríkið sem þarf að lúta þannig eftirliti. Svona stuðning er betra að vera laus við.

Nær væri að íslenska ríkið myndi sýna Mannréttindadómstól Evrópu þá virðingu sem hann á skilið og meira til á tímamótum sem þessum

Hvernig sem dómsniðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu verður í vikunni, þá verðum við að hlúa að og auka almenna virðingu fyrir alþjóðastofnunum og sáttmálum sem snúast um virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði og lögum og reglum. Að tala mannréttindastofnanir niður er grafalvarlegur hlutur og snýst um miklu meira en stöður, embætti eða að slá pólitískar keilur. Það snýst um ábyrgð og virðingu. Eitthvað sem sumt íslenskt stjórnmálafólk mætti tileinka sér í meiri mæli, segir Rósa Björk meðal annars í fínni grein sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: