- Advertisement -

Efnahagslegar almannavarnir

Það er því eftir miklu að slægjast fyrir okkur sem þjóð að meiri jöfnuður náist á Íslandi.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég held áfram að segja ykkur frá launakjörum landans og þeim ójöfnuði sem ríkir. Nýjasta myndin frá mér sýnir muninn á efsta launaflokki landsins og lægstu flokkum eftir launagreiðanda og launþegahreyfingu. Myndir byggir á kjaraupplýsingum fyrir maí síðastliðinn og er unnin úr gögnum frá Kjaratölfræðinefnd. Það er eitt og annað áhugavert sem kemur fram á myndinni.

Dálkarnir fyrir háskólamenntaða launamenn (BHM og KÍ) sýnir að nám á háskólastigi er einhvers virði enda súlurnar þar lægstar heilt yfir myndina. Á sama tíma vekur það eftirtekt að lægstu laun kennara hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavík eru rúmlega fimmfalt lægri en hæstu laun landsins samanber innrammaða gula súlan. Að jafnaði þá eru lægstu laun kennara 4,6 falt lægri en hæstu launaflokkar landsins. Þetta finnst mér endurspegla skringilegt verðmætamat vinnuafls enda almenn sú skoðun ríkjandi hjá landanum að starfsmenn mennta- og heilbrigðisstofnana séu mikilvægasta vinnuafl hagkerfisins. Án þeirra þá einfaldlega stoppar atvinnulífið að mestu og tekur ekki framförum.

Hjá því verður ekki komist að spyrja þeirrar spurningar hvort að forsvarsmenn ASÍ og einstakra undirfélaga og forráðamenn BSRB séu að skila tilætluðum árangri í kjaraviðræðum.

Það er einnig eftirtektarvert hvað súlurnar hjá ASÍ og BSRB eru háar. Þær sýna að jafnaði upp undir sexfaldan launamun gagnvart hæstu launum landsins. Staldra þarf við þessa staðreynd í ljósi þess að ASÍ er stærsta launþegahreyfing landsins með um 67 prósent launamanna innan sinna vébanda. Hjá því verður ekki komist að spyrja þeirrar spurningar hvort að forsvarsmenn ASÍ og einstakra undirfélaga og forráðamenn BSRB séu að skila tilætluðum árangri í kjaraviðræðum. Ég hygg að sexfaldur munur hæstu og lægstu launa sé ósjálfbært og vinni gegn almannahagsmunum varðandi jafnan og stöðugan hagvöxt og atvinnustig.

Þegar súlurnar fyrir ASÍ og BSRB eru skoðaðar þá vekur það aftur athygli að önnur sveitarfélög en Reykjavík sýna mesta launaójöfnuðinn samanber innrömmuðu gulu súlurnar. Hér er eitthvað sem þarf að skoða.

Ég hef verið spurður af hverju ég sýni þessu efni áhuga og skrifi ítrekað um málefnið? Svarið er einfalt. Alþjóðlegar rannsóknir sýna jákvætt samband milli aukins launajafnaðar og hagvaxtar. Sem sagt, aukin launajöfnuður dregur úr atvinnuleysi á hverjum tíma. Það er því eftir miklu að slægjast fyrir okkur sem þjóð að meiri jöfnuður náist á Íslandi. Það eflir ekki bara undirstöður hagkerfisins heldur dregur það úr efnahagssveiflum sem eru ávísun á efnahagslega sóun. Þeir sem tala gegn auknum launajöfnuði eru í raun að kalla eftir óhagkvæmni og hærri sköttum. Aukinn launajöfnuður flokkast undir efnahagslegar almannavarnir!

Í næstu grein þá mun ég fjalla um hvernig launafólk dreifist í einstaka launaflokka til að gefa fyllri mynd af launaójöfnuði.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: