- Advertisement -

Ég er stoltur skríll

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í þessari grein hér „Ólundarskrif Kolbrúnar Bergþórsdóttur“ þá sagði ég ykkur frá auðvaldstotti Kolbrúnar í tiltekinni skoðangrein hjá Fréttablaðinu. Hún uppnefndi nafngreint fólk páfagauka og sagði það siðleysingja svona eins og að hún sjálf þekki til siðferðis. Í dag þá heldur hún áfram að baða sig í eigin illu innræti. Kallar fólk sem tjáir skoðanir sínar og mótmælir spillingunni í kringum  Íslandsbankasöluna skríl. Samkvæmt henni þá tilheyri ég yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar, ég er skríll. Ég hef bæði mætt á mótmælin við Austurvöll og tjáð mig í skrifuðu máli. Ég er stoltur skríll því ekki get ég hugsað mér andvaraleysi gagnvart spillingaröflum, sem Katrín Jakobsdóttir verndar. Annars sofnar málið eins og Kolbrún boðar.

Um 80% þjóðarinnar hefur tjáð vandlætingu sína á Íslandsbankasölunni samkvæmt skoðanakönnunum. Fólk hefur síðan sinn háttinn á því að fylgja skoðun sinni eftir. Ýmsir mæta á mótmæli við Austurvöll, aðrir fylgjast með í gegnum streymi vítt og breitt um landið, enn aðrir stinga niður penna og all flestir munu síðan tjá sig í kjörklefanum í komandi sveitarstjórnarkosningum. 

Sjá einnig: Kolbrún hjólar í mótmælendur Íslandsbankasölunnar: „Þetta fólk saknar tímans þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur“

Kolbrún segir stjórnarandstöðuna vera með djöfulgang og að þar vilji fólk grípa til hvaða ráða sem er. Fullyrðing Kolbrúnar kemur ekki á óvart enda heldur auðvaldstottið utan um pennann. Sakar stjórnarandstöðu um gífuryrði á sama tíma og Framsóknarflokkurinn aðhyllist rasisma. Það virðist fara afskaplega vel í Kolbrúnu. Og vændiskaup þingmanns Flokk fólksins í Bang-kok virðist einnig eiga upp á pallborð Kolbrúnar enda hún sjálf landsfræg fyrir sitt auðvaldstott.

Það virðist einnig fara vel í Kolbrúnu að fjármálaráðherra seldi pabba sínum banka þvert á heimildir í landslögum. Og henni finnst bara sæmilegt að gefa söluaðilum 700 milljónir króna fyrir nokkurra klukkustunda vinnu. Rúsínan í pylsuendanum er síðan fullyrðing Kolbrúnar að fjármálaráðherra hafi ekki einn staðið að skipulagningu bankasölunnar. Það er rétt, en ráðherrann var með vel valda samverkamenn innan Bankasýslunnar. Vini sem hjálpuðu honum við myrkraverkið. Núna vill hann leggja stofnuna niður til að vernda sjálfan sig. Og meðal söluaðila eru síðan fyrirtæki, sem skála reglulega með ráðherranum með eða án grímu.

Kolbrún gengur svo langt að segja að söluna ekki jafngilda spillingu, siðleysi eða svikum við þjóðina. Einmitt, að selja pabba sínum banka er ekki spilling. Að brjóta marga lagabálka er ekki siðleysi og að ganga gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar um að selja ekki bankann eru ekki svik. Í hvaða veröld býr Kolbrún Bergþórsdóttir?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: