- Advertisement -

Eiginkona hæstaréttardómara hvetur til valdaráns

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Óhætt er að fullyrða að lýðræðið á undir högg að sækja og ekki er hægt að ganga að hlutleysi dómstóla vísu. Hvorki á Íslandi né í Bandaríkjunum.

Rannsókn á tilraunum Donalds Trumps til að halda völdum eftir kosningatapið á móti Joe Biden hefur leitt ýmislegt óhuggulegt í ljós. Meðal gagna sem rannsóknarnefnd Bandaríska þingsins hefur opinberað eru textasamskipti milli Ginni Thomas, eiginkona Clarence Thomas dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, og Mark Meadows, starfsmannastjóra Donalds Trumps. Samskiptin ná yfir þriggja mánaða tímabil eða frá lokum kosninganna í nóvember 2020 og allt fram til forsetaskiptanna í janúar 2021.

Í skilaboðunum þá hvetur Ginni Thomas starfsmannastjórann til að berjast gegn valdaskiptum með öllum ráðum. Ekki er um einhver tilfallandi skilaboð að ræða heldur eru eru þau 29 að tölu fyrir utan aðrar samskiptaleiðir. Í einum skilaboðum segir orðrétt „Ekki gefast upp, það tekur tíma fyrir herinn að safnast saman og verja stöðu Trumps“. Í öðrum segir Ginni „Meirihlutinn veit að Biden er að reyna mesta valdarán í sögunni“.

Allir vita að Joe Biden vann sannfærandi kosningasigur og líta verður til hegðunar Ginni út frá þeirri staðreynd að þetta mál allt getur endað fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna. Þar er eiginmaður Ginni fyrir á dómarabekk og kæmi hann til með að fella dóma fyrir utan að vera í nánu talsambandi við aðra dómara við réttinn. Einnig varpa samskiptin skýru ljósi á að ýmsir innan valdastéttar Repúblikana eru reiðubúnir að ganga afar langt í að grafa undan lýðræðinu og hlutleysiskröfunni sem gerð er til dómstóla í þróuðum lýðræðisríkjum.

Hegðun Ginni minnir mig á Sjálfstæðisflokkinn sem gín yfir dómstólakerfi Íslands.

Hegðun Ginni minnir mig á Sjálfstæðisflokkinn sem gín yfir dómstólakerfi Íslands. Í þessu sambandi má nefna þegar dómur féll í Hæstarétti í kvótamálinu svokallaða þar sem sératkvæði féll gegn sérhagsmunum sægreifanna. Ekki löngu síðar var búið að koma hlutunum svo fyrir að Hjörtur Torfason hæstaréttardómari fór á snemmbúin eftirlaun. Ekki löngu síðar féll nýr dómur í málinu sem er þóknanlegur Sjálfstæðisflokknum og sægreifum landsins án sératkvæða.

Nærtækt er einnig að nefna svindlkosningarnar til Alþingis í september á síðasta ári þar sem sannað talningarsvindl var látið viðgangast með blessum frá Katrínu Jakobsdóttur. Tveir frambjóðendur hafa nú þegar kært niðurstöðurnar til Mannréttindardómstóls Evrópu frekar en að fara í gegnum íslenska dómskerfið. Tangarhald Sjálfstæðisflokksins á dómstólum landsins veldur því að hlutleysi dómstóla er ekki yfir vafa hafið og er mögulega ekki fyrir hendi. Nægir þar til dæmis að nefna að þrjú ættmenn Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, eru dómarar við dómstóla landsins. Engin önnur fjölskylda á Íslandi er með viðlíka dómaravægi.

Einnig má nefna skipun dómara við Landsrétt í tíð Sigríðar Andersen, en hlutleysi þess dómstóls er ekki yfir vafa hafið eins og tilteknir dómar réttarins staðfesta glögglega. Sömu sögu er að segja um Hæstarétt Íslands þar sem tilteknir dómarar hafa verið staðnir að því að nauðga hlutleysiskröfunni. Á milli þess sem dómarar við réttinn eru að leggja kapal vegna málaskorts þá geta náin tengsl við aðila út í bæ ráðið úrslitum um hvort mál fái áfrýunarleyfi til Hæstaréttar eða hver niðurstaða úrskurða er. Dæmin sanna þetta.

Óhætt er að fullyrða að lýðræðið á undir högg að sækja og ekki er hægt að ganga að hlutleysi dómstóla vísu. Hvorki á Íslandi né í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: