- Advertisement -

Eignaupptaka á ábyrgð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur

Jóhann Þorvarðarson:

Ég tel að kominn sé grundvöllur fyrir hópmálsókn gagnvart ríkinu. Í  því tilviki þá ber forsætisráðherra pólitíska ábyrgð því hún ákvað að skipa núverandi seðlabankastjóra þrátt fyrir rauðar og augljósar viðvaranir um að skipanin væri afleikur.

Nú er talsvert talað um tíu prósent skerðingu á réttindum og lífeyri sjóðfélaga í A deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og hún tengd við laga- og reglubreytingar síðan á árinu 2016. Réttilega er sagt að um eignaupptöku sé að ræða þegar ábyrgð ríkisins var afnumin bótalaust. Þankaganginn sem þar býr að baki má einnig heimfæra yfir á efnahagslega óstjórn landsins.    

Myndin sem fylgir ber saman stöðuna á Íslandi og í Danmörku í verðlags og vaxtamálum. Reykur stendur upp af verðbólgueldinum á Íslandi og innheimtir eru glæpsamlegir vextir af þeim sem eru annað hvort með breytilega vexti eða við það að missa vaxtafestuna. Ráðleggingar Seðlabankastjóra eru að heimilin lengi í lánum. Það mun óhjákvæmilega leiða til þess að áorðin íbúðarfjárfesting verður dýrari en gengið var út frá þegar seðlabankastjóri sagði landsmönnum að vextir væru komnir til með að vera lágir. Lenging í lánum leiðir einnig til þess að mögulegur framtíðarsparnaður verður minni en ella. Þar með verður framtíðarlífeyrir lægri.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Framtíðarlífeyrir verður lægri fyrir vikið.

Hin ráðlegging seðlabankastjóra er að fólk færi sig yfir í verðtryggð lán, en það er ígildi eignaupptöku því verðtryggingin étur sig smátt og smátt inn í eignarhluta íbúðarkaupenda og getur stökkbreytt lánum. Við vissar aðstæður þá gæti eigin eignarhluti horfið. Niðurstaðan af verðtryggingunni yrði sú sama og í tilvikinu að lengja í láni. Framtíðarlífeyrir verður lægri fyrir vikið. Þannig að yfirlýsing seðlabankastjóra er rándýr og hefur reynst vera fölsk. Hann er búinn að hækka vexti þrettán sinnum á undanförnum mánuðum og eru þeir hvergi hærri í nágrenni Íslands.

Með sama lagi og Gylfi Magnússon bendir á að ofangreind réttindaskerðing hjá LSR sé bótaskyld og málsvörn ríkisins vonlaus þá tel ég að bótaskylda sé uppi hjá ríkinu gagnvart þeim íbúðarkaupendum sem ákváðu að fjárfesta í íbúð undir trommandi yfirlýsingu seðlabankastjóra um að vextir væru komnir til með að vera lágir. Sönnunarbyrðin er auðveld og málsvörn ríkisins yrði vonlaus. Jafnvel þó virði íbúða hafi hækkað því breyting gæti orðið á vegna verðbólgu sem Seðlabanki Íslands ber ábyrgð á.

Ég tel að kominn sé grundvöllur fyrir hópmálsókn gagnvart ríkinu vegna forsendubrests, sem seðlabankastjóri ber fulla ábyrgð á. Svo ber forsætisráðherra pólitíska ábyrgð því hún ákvað að skipa núverandi seðlabankastjóra þrátt fyrir rauðar og augljósar viðvaranir um að skipunin væri afleikur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: