- Advertisement -

Einföld leið og Ásthildur Lóa í ruglinu

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Við erum líka enn með ríkisstjórn sem svíkur gefin loforð í tengslum við kjarasamninga. Þar má til dæmis nefna leiguokrið á íbúðamarkaði.

Eins og áður þegar gildandi kjarasamningar fara að renna sitt skeið á enda fer umræða í gang um hvernig hægt er að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Fólksins sem berst í bökkum á sama tíma og það er límið í samfélaginu. Öðru megin kjaraborðsins eru hagsmunagæslumenn þeirra sem aldrei vilja bæta kjörin. Hinu megin eru svo fulltrúar launþega sem þiggja laun úr samhengi við kjör þeirra sem samið er fyrir.

Kjarasamningar hafa verið mislélegir í gegnum tíðina því samfélagið situr enn uppi með fátækt og sömu fátæktargildrurnar og áður. Við erum líka enn með ríkisstjórn sem svíkur gefin loforð í tengslum við kjarasamninga. Þar má til dæmis nefna leiguokrið á íbúðamarkaði. Hér skiptir engu þó Vinstri græn sé með Katrínu Jak í oddvitasæti ríkisstjórnar. Hún og flokkur hennar ráða engu um þau mál sem skipta mestu. Smáflokkurinn Vinstri græn er límið milli sérhagsmunaflokkanna tveggja, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Þetta er eins og einn aðili, sem þekkir til, sagði við mig að Katrín er skrifstofustjóri  í stjórnarráðinu sem hleypur á milli Bjarna Ben og Sigurðar Inga til að miðla málum þegar þeir eru ósammála.

Flokkur fólksins er engu betri. Er á villigötum eins og gjarnan verður þegar nýir flokkar eru farnir að venjast munaðinum inn á Alþingi. Hlýjan blindar nefnilega flesta og flokkar gleyma erindi sínu. Nú talar Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður flokksins um fátt annað en að hækka hér bankaskatt því bankarnir græða svo mikið að hennar sögn. Þetta segir hún jafnvel þó arðsemi eigin fjár bankanna sé bara á eðlilegu róli, jafnvel óviðunandi að teknu tilliti til áhættu.

BB og SIJ:

Þá myndi raunveruleg samkeppni sjást á Íslandi, sem er eitthvað sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur vilja ekki sjá.

Bankaskattur vinnur gegn hagsmunum þeirra sem kusu Flokk fólksins og mest gegn þeim fátækustu. Skattur af þessum toga hækkar einfaldlega arðsemisþröskulda banka sem þeir velta hiklaust beint út í útlánsvextina vegna þess að á bankamarkaði ríkir fákeppni. Fyrir vikið þá verður dýrara að taka lán, dýrara að byggja og dýrara að framkvæma. Húsaleigan verður dýrari. Hafi Flokkur fólksins í raun og veru áhuga á því að uppræta fátækt þá er einfaldasta leiðin að árangri að berjast fyrir því að evran verði tekin upp sem gjaldmiðill. Þá myndi raunveruleg samkeppni sjást á Íslandi, sem er eitthvað sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur vilja ekki sjá.

Íslendingar hafa góða reynslu af áhrifum Costco, sem jók samkeppni. Með aðild að evrunni þá myndu kjör batna enn frekar vegna alvöru samkeppni. Hún tæki yfir einokun og fákeppni sem ríkir á Íslandi. Þessar kjarabætur fengjust án aðkomu aðila við kjaraborðið. Það er því undarlegt að Flokkur fólksins hefur upptöku evrunnar ekki á stefnuskrá sinni. Það segir mér að þar á bæ þá fylgi ekki hugur máli í raun og veru því það er svo notalegt inn á Alþingi. Tommi fær sé bara lúr í vinnunni og hárgreiðslan á Jakobi Frímanni helst óhögguð í logninu á sama tíma og Ásthildur Lóa heimtar hærri bankaskatt.   


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: