- Advertisement -

Ekki elta hnykilinn, það magnar vandann!

Sama úrræðið á við um markaðshagkerfið. Það mun hreinsa sig af fyrirtækjum sem ekki hafa byggt upp varasjóði.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Strax í upphafi veirufaraldursins setti ég fram þá skoðun að farsælasta leiðin út úr efnahagsvandanum væri að láta markaðinn um að hreinsa sig. Ríkið á að einbeita sér að því að efla innlenda eftirspurn með því að taka upp borgaralaun og hætta með atvinnuleysisbætur. Þetta er einnig lausn til framtíðar vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur farið í munu fyrst og síðast tefja óumflýjanlegt hreinsunarferli. Kröfur hagsmunasamtaka fyrirtækja í landinu miða ekki að því að leysa neinn efnahagsvanda heldur snýst baráttan þar um að viðhalda óbreyttu eignarhaldi á framleiðsluþáttum hagkerfisins. Það er fyrir fram töpuð barátta og rangt að nota ríkissjóð til að sparsla upp í sífellt gliðnandi glufur. Þær aðgerðir verða dýrari og dýrari og dýrari.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Kristrún Mjöll Frostadóttir hagfræðingur Kvikubaanka.
„Sú leið sem hagfræðingur Kvikubanka er að berjast fyrir er vanhugsuð og einkennist af örvæntingu. Já, og mögulega sérhagsmunum Kvikubanka.“
Skjáskot: Kastljós.

Hagfræðin leitar ætíð að hagkvæmustu lausninni og fyrirmyndirnar eru oft á ólíklegum stöðum og við hendina. Þannig er það núna. Við getum tekið prjónakonuna til fyrirmyndar. Ef hún missir hnykilinn frá sér þá borgar sig ekki að kippa í spottann til að ná hnyklinum til baka því þá raknar bara meira af honum. Besta úrræðið er að láta hnykilinn detta í gólfið og fara sína leið. Taka hann síðan upp því þá hefur minnst raknað af honum.

Sama úrræðið á við um markaðshagkerfið. Það mun hreinsa sig af fyrirtækjum sem ekki hafa byggt upp varasjóði, eru með eigendur sem hafa ekki eða vilja ekki setja meira fé í reksturinn. Það sem gerist er að kröfuhafar taka yfir framleiðsluþættina eins og til dæmis hótelin eða fjallajeppana, rúturnar, veitingahúsin og já Icelandair ef það er nauðsynlegt. Kröfuhafarnir verða nýir eigendur og setja mögulega nýja kennitölu utan um reksturinn. Það verður metið í hverju tilviki fyrir sig.  Mjög líklega verður sama fólkinu boðin störf hjá fyrirtækjunum sem eiga sér framtíð þannig að framleiðslu- og þjónustugeta landsins hverfur ekki. Ekki heldur þekkingin! Þetta er ekki þannig að núverandi eigendur sem einnig er starfsfólk hafi ekki ágæta samningsstöðu því það er kunnugt staðháttum, býr yfir hæfninni og hefur dugnaðinn. Þannig að það er dýrara fyrir kröfuhafana að byrja upp á nýtt með nýju fólki. Svo er hægt að bjóða eigendum sem ekki geta haldið í fyrirtækin upp á kaupréttarsamninga til framtíðar.

Staða Íslands er ekki sérstök að neinu leyti.

Í þessu ferli þá verður skuldum breytt í hlutafé og þar með verður til þolinmótt fjármagn sem kann að bíða afleiðingar faraldursins af sér.  Síðan selja kröfuhafarnir fyrirtækin frá sér smátt og smátt. Jafnvel til núverandi eigenda í gegnum kaupréttarsamninga sem ég nefndi áður. Það er sárt fyrir fólk að lenda í þessu, en svona virkar markaðshagkerfið og svona virkar áhættan sem fjárfestar taka á sig. Áhættan virkar í báðar áttir og ekki gengur að ríkisvæða tjónið. Það heitir pilsfaldakapítalismi og er hann úr sér gengin. Kerfið virkaði þegar Eyjafjallagosið stóð yfir og skilaði síðan þjóðinni á þann stað sem hún var á þegar faraldurinn reið yfir.

Hagsaga heimsins geymir margar reynslusögur af svona ástandi og hvernig unnið var úr stöðunni. Þekkingin til að takast á við stöðuna í dag hefur aldrei verið meiri. Þetta er leiðin sem verður farin á endanum hringinn í kringum hnöttinn. Öll hagkerfi heimsins standa frammi fyrir hliðstæðum efnahagsvanda því alheimshagkerfinu var lokað að mestu. Staða Íslands er ekki sérstök að neinu leyti í þessum efnum þó margir segi að ferðaþjónustan sé svo stór hluti af hagkerfinu. Það breytir engu um það hvernig hagkvæmast er að leysa vandann.

Sú leið sem hagfræðingur Kvikubanka er að berjast fyrir er vanhugsuð og einkennist af örvæntingu. Já, og mögulega sérhagsmunum Kvikubanka.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: