- Advertisement -

Ekki harmdauði

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það er ekkert vafamál að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur fyrir kyrrstöðu, grotnandi innviði og óstjórn.

Nýfrjálshyggjan drapst endanlega í heimsfaraldrinum eftir að hafa verið í dauðaslitrum í nokkur ár. Kóvít-19 slökkti á öndunarvélinni. Andlátið var engum harmdauði nema Sjálfstæðisflokknum og dótturfyrirtæki hans, Samtökum atvinnulífsins. Gildismat veraldar breyttist nefnilega í faraldrinum. Nei annars, nýfrjálshyggjan gat ekki lengur kúgað gildismatið með glundroðaknningu fái almenningur völdin.

Jarðarbúar hafa aldrei áttað sig betur á mikilvægi sameiginlegra innviða en einmitt núna. Svipuð vakning var eftir seinna stríð á síðustu öld með tilheyrandi velsæld heildarinnar. Í dag þarf heilbrigðiskerfið ekki einungis að vera í toppformi heldur einnig hin kerfin þrjú: menntakerfið, vegakerfið og fjarskiptakerfið. Þakka má veiruhrottanum fyrir að hafa kjarnað hin raunverulegu pólitísku gildi jarðarbúa. Gildi sem skipta öllu þegar á hólminn er komið.  

Það er ekkert vafamál að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur fyrir kyrrstöðu, grotnandi innviði og óstjórn. Í stað þess að ástunda fyrirhyggjustjórnun þá var ríkisstjórnin þjökuð af bútasaumsáráttu, sem kölluð er viðbragðastjórnun. Ekkert gert nema nauðbeygðar aðstæður kalli á viðbrögð. Í faraldrinum þá tók Katrín Jak til við að innleiða fyrirtækjaþjónkun af verstu gerð. Fyrirtæki með forstjóra sem hefur 18 millur á mánuði í laun fengu milljarða króna í óþarfa styrki. Fjárhagsstaða auðvaldsins mátti nefnilega ekki sjá högg á vatni.  

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sérhyggjunni var sturtað niður í gegnum klóakrörin.

Þar sem þingkosningar hafa farið fram að undanförnu þá hafa stjórnmálin færst yfir til vinstri og áhersla er lögð á félagshyggju og samstöðu heildarinnar. Sérhyggjunni var sturtað niður í gegnum klóakrörin. Nægir hér að nefna kosningar í Noregi, Þýskalandi, Bretlandi og ekki síst í Bandaríkjunum.

Stefna ríkisstjórnar Joe Bidens Bandaríkjaforseta ber þess merki að félagslegar áherslur eru ofan á. Það sést til dæmis í hækkun allra bótalauna og auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Fyrirmyndirnar eru Danmörk og Svíþjóð. Áherslubreytingarnar hófust hjá ríkisstjórn Baraks Obama þegar Hillary Clinton kynnti sér hvernig hlutirnir eru gerðir í Skandinavíu.

Bandaríkjastjórn Bidens ætlar að uppræta fátækt. Bæta aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og hækka skatta á hina ríku, sem hafa krafist þess að fá að borga hærri skatta. Nægir þar að nefna kröfur auðugra fjölskyldna um að fá að borga hærri skatta. Auðfólkið viðurkennir að nýfrjálshyggjunni hafi mistekist hrapalega. Stefnan er því komin á ruslahaugana. Í Bandaríkjunum þá geta stjórnvöld ekki lengur horft upp á grotnandi innviði enda viðurkennt að þeir séu lífæð einkageirans. Fyrir þá er borgað með sköttum.

Opinberar skuldir Bandaríkjanna hafa aldrei verið hærri. Samt ætlar ríkisstjórnin að ráðast í mestu innviðafjárfestingar sem um getur síðan eftir seinna stríði. Þær verða fjármagnaðar með skattahækkunum á auðfólkið og aukningu opinberra skulda enda kostar fjármagn ekkert um þessar mundir. Með stórkostlegum fjárfestingum þá ætla Bandaríkjamenn að auka eigin samkeppnishæfni og viðhalda háu atvinnustigi. Greiða á síðan skuldir með sjálfbærara hagkerfi. Styðjast á við grænar lausnir eins og til dæmis Sósíalistar boða.

Þegar nútímaþróunin er höfð í huga þá er alltaf jafn hallærislegt, ef ekki hlægilegt, að hlusta á formann Sjálfstæðisflokksins tala um að opinberar skuldir séu af hinu illa. Þær eru framfarahvatning og merki um heilbrigt viðbragð við kreppuástandi. Það er lífsnauðsynlegt að Ísland fái aðra ríkisstjórn sem sækir styrk sinn til vinstri eins og Bandaríkjastjórn gerir.    


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: