Greinar

Ekki sama Ísland og Noregur

By Ritstjórn

December 31, 2021

Kristinn T. Haraldsson skrifaði:

Ellilífeyrir (pensjon) á Íslandi samanburður við Noreg.

Í síðustu viku fékk ég bréf frá NAV í Noregi þar sem ég bý sem er sama stofnun og Tryggingarstofnun á Íslandi sem sér um að greiða út ellilífeyri.

Ég varð 67 ára sl. sumar og er í fullri fastri vinnu. Í lögum hér í Noregi er fólki leyft að vinna til sjötugs í fullu starfi og fá á sama tíma greiddan út ellilífeyri í viðbót við atvinnutekjur. Þar af leiðandi í þessi þrjú ár getur ellilífeyrisþegi, ef hann vill halda áfram starfi til sjötugs verið á tvöföldum mánaðarlegum launum. Eftir sjötugt get ég haldið áfram sem lausráðinn bílstjóri og tekið vaktir, fengið mín laun og lífeyrir óskert.

Í bréfi því sem ég fékk frá NAV voru þeir að tilkynna mér að mánaðarlegur ellilífeyrir minn muni hækka frá 1. janúar, ég held sem sagt áfram að vinna mér inn hærri réttindi á meðan ég er í vinnu.

Þegar kemur að skattamálum á ellilífeyri gerir Ísland þeim Íslendingum sem búsettir eru á Norðurlöndunum erfitt fyrir að flytja til baka þar sem um samsköttun er að ræða á milli landanna, þannig að viðkomandi einstaklingur greiðir þá skattprósentu í því landi sem hann á lögheimili í. Á Íslandi er tekinn fullur tekjuskattur af ellilífeyri sem er ca. 38%, en Noregur tekur 14% skatt af ellilífeyri. Það þýðir að ef ég flyt til Íslands þarf ég að greiða aukaskatt af ellilífeyrinum frá Noregi sem er ca.22%. Á meðan ég bý í Noregi og fæ ellilífeyri frá Íslandi sem búið er að taka fullan skatt af sem er cirka 38% fæ ég endurgreiddan mismuninn frá norska ríkinu sem er ca 22%. Þegar öllu er á botninn hvolft þá refsar Ísland Íslendingum fyrir að vera orðnir ellilífeyrisþegar á meðan Noregur heiðrar þá þótt það sé ekki mikill peningur á norskan máta.

Svo spurningin er, hvenær ætla Íslendingar að standa í fæturna og mótmæla? Það verða allir gamlir ef þeir deyja ekki ungir. Ungir í dag halda að það verði komnar nýjar reglur þegar þeir verða gamlir. Það hefur ekki verið svo. Þessi umræða hefur verið í gangi í að minnsta kosti 40 ár, svo lengi hef ég verið að fylgjast með henni.

Sem dæmi, fyrsti maðurinn sem ég man eftir sem fór að berjast fyrir ellilífeyrisþega var Halldór E. Sigurðsson ráðherra og síðan hafa margir þekktir einstaklingar ljá baráttunni lið, en gerðu ekkert á meðan þeir voru ungir.

Kæru vinir og félagar, hvort sem er í pólitík, atvinnulífinu eða venjulegt vinnandi fólk, stoppum óréttlætið!