- Advertisement -

Endurfjármagnið húsnæðislánin

Takið eftir ráðstöfunartekjur af óverðtryggða láninu hefur lækkað um 45.590 kr. á mánuði eða sem nemur 547.080 á ársgrundvelli.

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Eitt að aðalmarkmiðum lífskjarasamningsins var að semja á þeim forsendum að samningurinn myndi skapa grundvöll til vaxtalækkunar og með vaxtalækkun vildum við ná að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með fleiri þáttum en beinum launahækkunum.

Nú hefur komið í ljós að þetta markmið lífskjarasamningsins hefur heppnast þótt vissulega megi færa rök fyrir því að fjármálakerfið hafi ekki skilað allri stýrivaxtalækkun Seðlabankans til almennings og heimila.

Við höfum verið að skoða hvernig vaxtalækkun hefur skilað sér frá því að lífskjarasamningurinn var undirritaður 3. apríl 2019 og það er afar ánægjulegt að sjá að greiðslubyrði á óverðtryggðu láni hefur lækkað um 29,56% og á verðtryggðu láni um 22,4% frá því við undirrituðum lífskjarasamninginn 3. apríl 2019.

Við skoðuðum breytingu á vaxtakjörum í Landsbankanum fyrir lífskjarasamninginn og eins og staðan er í dag er breytingin með eftirfarandi hætti:

Vextir hjá Landsbankanum miðað við 70% veðsetningarhlutfall:

  • Lægstu verðtryggðu vextirnir voru 3,55% þann 3. apríl 2019 (Breytilegir verðtryggðir vextir)
  • Breytilegir verðtryggðir vextir 24. júní 2020 eru 2,00%
  • Verðtryggðir vextir hafa lækkað um 1,55% stig

Óverðtryggðir vextir hjá Landsbankanum:

  • Lægstu óverðtryggðu vextirnir 3. apríl 2019 voru 6,00%
  • Lægstu óverðtryggðu vextirnir 24. júní 2020 eru 3,50%
  • Óverðtryggðir vextir hafa lækkað um 2,50% stig

Við skoðuðum einnig hvernig greiðslubyrðin hefur breyst á þessu tímabili og hún er eftirfarandi miðað við neðangreindar forsendur:• Forsendur: 28 m.kr. verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára:

• Lán tekið 3. apríl 2019. Greiðslubyrði á mánuði 111.104 kr.
• Lán tekið 24. júní 2020. Greiðslubyrði á mánuði 86.214 kr.
• Greiðslubyrði hefur lækkað um 24.890 kr. á mánuði (22,4%)
• Lækkun á vöxtum jafngildir að lán sem tekið væri í dag gæti verið til 28 ára í stað 40 ára.

• Forsendur: 28 m.kr. óverðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára.
• Lán tekið 3. apríl 2019. Greiðslubyrði á mánuði 154.200 kr.
• Lán tekið 24. júní 2020. Greiðslubyrði á mánuði 108.610 kr.
• Greiðslubyrði hefur lækkað um 45.590 kr. á mánuði (29,56%)

Takið eftir ráðstöfunartekjur af óverðtryggða láninu hefur lækkað um 45.590 kr. á mánuði eða sem nemur 547.080 á ársgrundvelli og á verðtryggða láninu um 24.890 kr. á mánuði eða sem nemur 298.680 kr. á ársgrundvelli.

Það er ljóst að aðalmarkmið okkar við gerð lífskjarasamningsins hefur svo sannarlega skilað okkar félagsmönnum aukningu á ráðstöfunartekjum og er ég stoltur af að hafa tekið þátt í þessum samningi. Ég hef sagt að lífskjarasamningurinn er einn albesti kjarasamningur sem ég hef komið að enda ávinningurinn umtalsverður.

Ég vil hins vegar brýna fyrir öllum sem ekki hafa endurfjármagnað húsnæðislán sín að gera það hið snarasta enda miklir hagsmunir í húfi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: