
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Það þýðir ekki fyrir fjármálaráðherra að þykjast ekki þekkja til framvirkra samninga því hann var duglegur að gera samninga af þessari gerð fyrir fjármálahrunið.
Burt með fjármálaráðherra og nýjar kosningar takk fyrir!
Með degi hverjum þá verður nauðvörn fjármálaráðherra í Íslandsbankasölunni vandræðalegri. Er nú svo komið að hann grípur óhikað til blekkinga til að byrgja mönnum sýn. Í þættinum Sprengisandi í dag þá ræddi hann frásögn Páls Magnússonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að vinur sinn hefði fengið símhringingu að kvöldi og tilboð um að kaupa hlutabréf í bankanum. Sá hafi síðan selt bréfin að morgni daginn eftir með 10 milljón króna hagnaði. Reiknaði Páll út að viðkomandi hafi hagnast um 1,5 milljónir króna á klukkutíma meðan hann svaf nóttina eftir.
Fjármálaráðherra sagði frásögn Páls ekki standast því hinir útvöldu kaupendur fengu bréfin ekki afhent fyrr en að viku liðinni. Afhendingartíminn er réttur hjá fjármálaráðherra, en framsett ályktun er blekking. Hann þykist ekki vita að hægt er að gera framvirka samning hvenær sem er og án þess að spyrja ráðherrann eða Bankasýsluna um leyfi. Þar með talið daginn eftir að viðkomandi tók tilboðinu. Það var einmitt það sem gerðist hjá ýmsum aðilum samkvæmt upplýsingum sem ég hef. Þetta er áþekkt því sem gerist í fasteignaviðskiptum. Íbúð er keypt og hluti söluandvirðisins er borgaður út. Íbúðin er síðan afhent síðar. Fólk er jafnvel að kaupa íbúð, sem ekki er byrjað að byggja, en borgar síðan eftir framvindu á byggingartíma á grundvelli framvirks samnings.
Burt með fjármálaráðherra og nýjar kosningar takk fyrir!
Það þýðir ekki fyrir fjármálaráðherra að þykjast ekki þekkja til framvirkra samninga því hann var duglegur að gera samninga af þessari gerð fyrir fjármálahrunið. Hann tók til dæmis reglulega stöður á gjaldeyrismarkaði, en slíkir samningar eru ætíð framvirkir. Ef ég man rétt þá fjallar Rannsóknarskýrsla Alþingis um viðskiptin.
Svo það sé sagt þá braut ráðherrann þrenn landslög þegar hann framkvæmdi söluna á hlutabréfunum fyrir um fjórum vikum síðan að mínu mati. Þess vegna þarf hann að axla ábyrgð með afsögn. Hann braut síðan fjórðu lögin þegar hann seldi hlutabréfin á undirverði í fyrra og aftur fyrir mánuði síðan. Eins og Ólína Þorvarðardóttir (ég er ekki skyldur henni) sagði á mótmælafundi á Austurvelli í gær þá er friðurinn rofinn. Burt með fjármálaráðherra og nýjar kosningar takk fyrir!