- Advertisement -

Enn veifar Morgunblaðið röngu tré

Vanstilling ritstjórnar er áberandi og ekki marga fagra fífla þar að finna.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Morgunblaðið fullyrti nýlega að Evrópa (Evrulandið) glími við verðhjöðnun og að það sé verra en verðbólga. Fyrri fullyrðingin er röng og sú seinni er innantómur áróður. Ekki er hægt að alhæfa um að verðhjöðnun sé verri, skoða verður kjöl málsins fyrst. Lesa í ræturnar og sjá hvað liggur að baki hjöðnuninni. Í framhaldinu má síðan skoða hvort hún er í raun skaðleg. Á árinu sem er að líða þá hefur verðlag innan Evrópusambandsins hækkað um 0,76 prósent frá upphafi ársins. Sem sagt, engin verðhjöðnun. Þar sem staðhæfingar Morgunblaðsins eru svo furðulegar þá ákvað ég að taka saman línurit sem sýnir hvernig raunveruleg verðhjöðnun lítur út. Svissneska hagkerfið varð fyrir valinu.

Á mynd 1 má sjá breytingu neysluverðs í Sviss frá janúar 2008 til og með október síðastliðnum.  Á helming tímans þá lækkaði neysluverð eða stóð óbreytt. Fyrst kemur örstutt tímabil á árinu 2009 og lækkaði neysluvöruverð um hálft prósent. Næst kemur fimm ára tímabilið sem hófst í október 2011 og endar í árslok 2016. Lækkaði vöruverð um alls 2,3 prósent. Þriðja tímabilið stendur hugsanlega yfir og hófst þegar fyrstu fréttir bárust af kórónuveirunni undir lok síðasta árs. Heilt yfir þá hafa hækkanir þó vinninginn og hækkaði vísitala neysluverðs um samtals 2,3 prósent eða um 0,19 prósent árlega. Verðstöðugleiki hefur þannig einkennt Svissneska hagkerfið síðustu árin, sem er öfundsvert.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Síðari fullyrðing Morgunblaðsins um að verðhjöðnun sé margfalt verri en verðbólga er eftirminnileg. Svisslendingum hefur farnast vel þrátt fyrir langt tímabil verðlækkana. Árlegur hagvöxtur er stöðugur og  liggur jafnan á bilinu 1,5-2 prósent. Atvinnuleysi er lítið og situr gjarnan í kringum 3 prósentin. Nýjustu mælingar segja að atvinnuleysi standi núna í 3,2 prósentum á sama tíma og það er 11,1 prósent á Íslandi. Stýrivextir Seðlabanka Sviss eru neikvæðir og hafa verið svo frá árinu 2015. Opinberar skuldir eru vel tamdar á meðan skuldir heimila eru háar enda peningaverð einstaklega lágt þar í landi. Síðan er það heilbrigðiskerfið, en í Sviss eru 4,5 sjúkrarúm á hverja þúsund íbúa. Á sama tíma eru 2,9 rúm á hverja þúsund íbúa á Íslandi. Takmarkað framboð sjúkrarúma setur hagkerfum miklar hömlur eins og komið hefur illilega í ljós. Röng er því sú alhæfing Morgunblaðsins að verðhjöðnun sé margfalt verri en verðbólga. Benda mætti á fleiri slík dæmi úr hagsögu heimsins.  

Frá gangsetningu evrunnar árið 1999 þá hefur árleg verðbólga verið undir góðu taumhaldi og farið lækkandi eins og stefnulínan á mynd 2 sýnir. Hæst fór bólgan í 3,6 prósent og árið 2016 var verðstöðnun. Eins og annars staðar þá hafa komið upp stakir mánuðir þar sem neysluverð hefur lækkað milli mánaða, en það gefur ekki tilefni til að setja fram innihaldslausar alhæfingar um verðhjöðnun í Evrópu og segja síðan að það sé ávísun á vonda hluti. Morgunblaðið hefði betur gaumgæft hlutina í stað þess að veifa röngu tré. Ítrekuð vindhögg blaðsins staðfesta að erindi þess er lokið. Málefnaleg þjóðfélagsumræða fer fram á öðrum stöðum. Árátta blaðsins að afbaka skírnarnöfn fólks er glöggt merki um laka málefnastöðu. Vanstilling ritstjórnar er áberandi og ekki marga fagra fífla þar að finna. Illgresið er yfirsterkara og fögur blóm ná ekki rótfestu. Ræktarlegir blómagarðar spretta upp á nýjum vettvangi.   

Verðhjöðnun er hvorki verri né betri. Ef hún á rætur að rekja til virkrar samkeppni og er studd heilbrigðri hagstjórn þá er það af hinu góða. Staðan gæti verið önnur ef fasteignaverð húrrast niður, en slíkt gæti kallað fram veldisvöxt í veðinnköllum. Eigið fé fasteignaeigenda gæti þurrkast upp og smitað hagkerfið af vírus. Þær aðstæður eru einfaldlega ekki upp núna, en gáfulegt er að hafa varann á.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: