- Advertisement -

Er 100 milljörðum króna laumað fram hjá Alþingi?

Ekki man ég til þess að Alþingi hafi fjallað um málið eða samþykkt lög þar um.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Rokkstjarnan í Svörtuloftum við Arnarhól er ekki að tvínóna við hlutina. Frá áramótum þá er hún búin að nota 74 milljarða króna af gjaldeyrisvarasjóði landsins til að halda uppi falskri verðmyndun á krónunni. Fjárhæðin gæti verið komin í 100 milljarða króna við lok árs og svo kemur árið 2021. Milljarðarnir verða þá ekki lengur flokkaðir sem gjaldeyrisvaraforði og hefur ytri áhætta þjóðarbúsins því aukist samsvarandi.

Varaforðinn er ekki eign Seðlabankans heldur er bankinn vörsluaðili forðans og ber lögum samkvæmt að varðveita hann. Það er síðan Alþingis og ríkisstjórnar að ákveða ráðstöfun úr honum. Rokkstjarnan og varaseðlabankastjórar setja sjálfum sér starfsreglur um varðveislu forðans, reglur sem forsætisráðherra getur ekki annað en þurft að samþykkja. Einnig get ég ekki séð annað en að reglugerðin þurfi einnig undirskrift fjármálaráðherra. Þið munið Samherjmálið og óundirskrifuðu reglugerðina. Þá vaknar spurningin hvaðan ráðherrarnir fá sína valdheimild til að misnota varaforðann með þessum hætti. Ekki man ég til þess að Alþingi hafi fjallað um málið eða samþykkt lög þar um.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég hef óskað eftir að fá afrit af áðurnefndum starfsreglum sem rokkstjarnan setur sjálfum sér og fengið höfnun.

Þegar lögin um Seðlabanka Íslands eru skoðuð þá er það vel skilgreint hvert hlutverk bankans er og hver verkefnin eru. Hvergi er á það minnst að bankinn geti notað gjaldeyrisvarasjóðinn til að halda uppi falskri verðmyndun krónunnar og tel ég bankann kominn út fyrir lagaheimildir, Já, og ekki í fyrsta sinn. Ég hef óskað eftir að fá afrit af áðurnefndum starfsreglum sem rokkstjarnan setur sjálfum sér og fengið höfnun. Gagnsæið á ekki upp á pallborðið í Svörtuloftum.

Vonandi mun Seðlabankinn upplýsa þjóðina, og þar með leiðrétta mig, um hvaðan valdheimildin kemur um að nota gjaldeyrisvarasjóðinn með þeim hætti sem gert er. Á ferðinni er ráðstöfun á geipilegri fjárhæð eða álíka mikið og fer í rekstur framhaldsskóla landsins. Vert er að taka fram til að forðast misskilning að peningunum hefur ekki verið eytt heldur gjaldeyri umbreytt í krónur, sem eykur þessa ytri áhættu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: