- Advertisement -

Er allt leyfilegt?

Kominn er upp forsendubrestur fyrir tilvist ríkisstjórnarinnar og kjósa verður í haust!

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Flokkarnir eru leikbrúður Sjálfstæðisflokksins.


Það er komið í ljós að hliðarflokkarnir tveir í ríkisstjórn Bjarna Ben höfðu ekki þolrif til að standa vörð um hagsmuni landsmanna og ríkissjóðs. Heilbrigðri skynsemi, almennu siðferði og vönduðum vinnubrögðum  var sópað undir teppið. Vinstri græn og Framsókn fóru á taugum eins og skjálfandi kúreki starandi í augu tryllts nauts. Óskir tuddanna í Sjálfstæðisflokknum og Hræsnarasamtökum atvinnulífsins um að nauðsynlegt væri að setja hraðskreitt færiband frá Marel inn í miðjan ríkissjóð fékk hraðafgreiðslu. Gefinn var út óútfylltur tékki. Eins og hendi væri veifað þá er búið að aftengja lögmál markaðarins og koma á fyrirtækja-sósíalisma sem ber feigðina í sér. Og kjósendur hafa ekkert haft um það að segja. Kominn er upp forsendubrestur fyrir tilvist ríkisstjórnarinnar og kjósa verður í haust!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sumir munu aldrei læra að skammast sín.

Fyrirtækjastjórar horfa gapandi á gullið streyma til sín á Marelbandinu. Hlutabótaleið eða ríkisgreidd laun í uppsagnarfresti er ekkert annað en kerfi sem bíður upp á gegndarlausa spillingu og misnotkun. Fallandi fyrirtæki eru sett á gálgafrest og stöndug fyrirtæki opinbera siðleysi sitt og ná sér í ókeypis almannafé. Og ekki neina smápeninga.

Í vikunni þá fékk ég vænan ógeðshroll að hlusta á Grím litla frá Bláa lóninu tala í sjónvarpi. Réttlætti hann að Gull-lónið væri nauðbeygt að biðja almenning um að borga laun í uppsagnarfresti á meðan hann bónar gullstangirnar. Fyrirtæki sem er búið að greiða út á annan tug milljarða í arð á undanförnum árum. Við þetta tilefni rifjaðist upp fyrir mér að Grímsi litli var stjórnarmaður í Sparisjóðabankanum þegar hann hrundi og átti í miklum viðskiptum við Sparisjóð Keflavíkur ef ég man þetta allt rétt. Í 31. Kafla Rannsóknarskýrslu Alþingis stendur orðrétt „Árið 2007 komu nýir eigendur að Sparisjóðabankanum og í fyrsta skipti sátu í stjórn hans aðilar sem ekki voru sparisjóðsstjórar. Inn komu Grímur Sæmundsen fyrir hönd SM1 ehf sem átti 9,5% hlut í bankanum og Steinþór Jónsson fyrir hönd Bergsins ehf sem átti einnig 9,5% hlut í bankanum. Steinþór var jafnframt varamaður í stjórn Sparisjóðs Keflavíkur hluta þess tíma sem hann sat í stjórn Sparisjóðabankans.“  

Þessar og aðrar upplýsingar rifja ýmislegt upp fyrir lesendum því ekki eru nema 12 ár frá fjármálahruninu. Ótrúlegt að andlit úr hruninu séu komin á ríkisspenann í nafni fyrirtækja-sósíalisma Sjálfstæðisflokksins. Sumir munu aldrei læra að skammast sín.

Búið er að vana bæði Vinstri græn og Framsókn að hætti dýralæknisins í ríkisstjórninni, Sigurðar Inga. Þetta er líklegast í fyrsta skipti sem einn og sami maðurinn nær að gelda sjálfan sig og án eftirsjár. Flokkarnir eru leikbrúður Sjálfstæðisflokksins.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: