- Advertisement -

Er allt með felldu?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þetta er náttúrulega tóm þvæla.

Af hverju formaðurinn hagar sér með þeim hætti sem hann gerir fær mann til að hugleiða hvort allt sé með felldu.

Formaður Sjálfstæðisflokksins stjórnar kosningabaráttu sem byggir á ósannindum. Auglýsingar og viðtöl staðfesta svo. Nú er sótt að honum að útskýra af hverju hann þakkar sjálfum sér og flokknum að vextir hafi lækkað á Íslandi. Hann heldur því nefnilega fram að það sé vegna meints stöðugleika. Í nýlegu sjónvarpsviðtali þá var saumað að formanninum og hann krafinn útskýringa á áróðrinum. Hann sagði til dæmis að vegna sameiningar Seðlabanka og Fjármálaeftirlits hafi vextir lækkað. Og að lagabreytingar um fjármálamarkaðinn og ríkisfjármál hafi einnig haft áhrif. Nú eða að nýjar nefndir hjá Seðlabankanum hafi tekið til starfa. Þetta er náttúrulega tóm þvæla.

Hann hélt áfram og sagði að lágar opinberar skuldir hefðu fært vexti niður á við. Samkvæmt þessu ættu vextir í Bandaríkjunum og víðar að vera himinn háir því opinberar skuldir hafa aldrei verið eins miklar og í dag. Vextir í löndunum eru samt núll prósent og jafnvel neikvæðir. Neðar verður ekki komist með vexti.

En hvernig ætli Seðlabankinn útskýri sínar eigin vaxtalækkanir sem hófust í maí árið 2019. Samkvæmt fundargerð Peningastefnunefndar frá sama mánuði þá áætlaði bankinn að samdráttur yrði á árinu 2019 vegna niðursveiflu í ferðaþjónustu og loðnubrests. Var hér um mikinn viðsnúning að ræða frá eldri spá bankans. Nefndin ákvað því að lækka stýrivexti um 0,5 prósentustig á sama tíma og ríkisstjórnin sat aðgerðarlaus hjá. Aðrar vaxtalækkanir í framhaldinu og fram að heimsfaraldri voru af sama meiði. Eftir að heimsfaraldurinn hófst þá lækkuðu vextir alls staðar í veröldinni vegna sjokksins sem honum fylgdi. Hann olli miklum efnahagslegum samdrætti, óstöðugleika. Þetta þarfnast ekki útskýringa svo vel þekkja landsmenn söguna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vaxandi efnahagslegur óstöðugleiki í tíð úrræðalausrar ríkisstjórnar var því grundvöllur ákvarðana um vaxtalækkanir bæði fyrir og í faraldrinum. Þetta er í hróplegu ósamræmi við fullyrðingar formannsins um að ímyndaður stöðugleiki hafi ráðið ferð. Af hverju formaðurinn hagar sér með þeim hætti sem hann gerir fær mann til að hugleiða hvort allt sé með felldu. Að baki honum eru síðan varaformaður og ritari flokksins ásamt öðru forystufólki í Valhöll. Hér er því ekki á ferðinni einhver skussaskapur að drita ósannindum yfir kjósendur heldur yfirveguð stefnumörkun um að ljúga.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: