- Advertisement -

Er ástandið fordæmalaust?

…eftir yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum fjárkröfum Seðlabankans upp á 192 milljarða króna.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mest notaða orð nú um stundir er án vafa lýsingarorðið fordæmalaus. En eru aðstæður endilega fordæmalausar í efnahags- og atvinnulegu tilliti? Það eru ekki nema 12 ár síðan Ísland gekk í gegnum verri ágjöf.

Áður en fjármálahrunið skall á árið 2008 hafði atvinnuleysi farið upp um 77 prósent frá árinu áður og í kjölfar hrunsins kom risastökk upp á 381 prósent. Í hruninu þá fór heil atvinnugrein á hliðina, fjármálageirinn. Á síðasta ári þá jókst atvinnuleysi um 56 prósent og í ár þá hefur atvinnuleysi aukist um 245 prósent og stendur í 25 þúsund manns rúmlega áætlað. Í dag þá hefur heil atvinnugrein hallast drjúglega á aðra hliðina eftir brotsjó, ferðaþjónustan.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það sem ríkisstjórnin á að einbeita sér að er að koma á borgaralaunum til tveggja ára.

Til að draga atvinnuleysistölurnar saman í einfaldan samanburð þá tæplega fimmfaldaðist atvinnuleysi á hrunaárunum sem hlutfall af mannfjölda. Í dag þá hefur atvinnuleysi rúmlega þrefaldast sem hlutfall af mannfjölda, en endanlega niðurstaða er óþekkt þegar þessi orð eru skrifuð.  

Árið 2008 þá var ríkissjóður rekinn með risa halla eftir yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum fjárkröfum Seðlabankans upp á 192 milljarða króna. Áætlanir ársins 2019 gera ráð fyrir vægum halla á ríkissjóð.

Vaxtarstig í dag er mjög lágt í sögulegu samhengi ólíkt stöðunni sem uppi var á hrunaárunum þegar vextir sleiktu 18 prósentin.  

Samantekið þá stöndum við betur að vígi í dag til að takast á við ágjöfina og rangt er að tala um fordæmalausar aðstæður í efnahags- og atvinnulegu tilliti. Þetta er áróðursorð komið frá hagsmunasamtökum atvinnulífsins. Óþarfi er að bugast undan áróðrinum og hleypa gráðugum krumlunum sem borgað hafa sér milljarða í arð ofan í ríkissjóð. Markaðurinn bjargar sér alltaf sjálfur. Erlendir ferðamenn munu síðan koma einn af öðrum þegar ferðaþráin og öryggi eykst, en það gerist ekki endilega í einum bráðum hvelli. Það sem ríkisstjórnin á að einbeita sér að er að koma á borgaralaunum til tveggja ára. Það er hraðvirkasta og réttlátasta leiðin til að stjaka hressilega við innlendri eftirspurn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: