- Advertisement -

Er Hörður sjálfur útlaginn?

Gífuryrðin gera nú ekki annað en að gjaldfella skrif Harðar á sama tíma og þær endurspegla vanstillingu.

Jóhann þorvarðarson skrifar:

Hörður Ægisson leigupenni Helga Magnússonar á Fréttablaðinu hefur farið mikinn í skrifum varðandi sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Kallar hann álit þeirra sem ekki deila hans eigin skoðun á málinu heimskulegar, hættulegar og ósvífnar. Nýjasta klofsparkið er að málflutningur hinna sömu sé fátæklegur. Að hinir sömu vilji að Ísland sé einhvers konar útlagi þegar kemur að skipan bankamála. Gífuryrðin gera nú ekki annað en að gjaldfella skrif Harðar á sama tíma og þær endurspegla vanstillingu.

Hörður hefur haldið því fram að eitt af því sem er öðruvísi en áður og réttlæti þar með sölu bankans sé sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Þetta á víst að veita bankanum meiri yfirsýn yfir fjármálakerfið og aukinn slagkraft til að takast á við markaðsbrest. Máli sínu til stuðnings þá vitnar Hörður í orð núverandi seðlabankastjóra um að þetta sé gott fyrirkomulag. Seðlabankastjóri er aftur á móti ekki góð heimild. Er þjóðkunnur fyrir að hafa básúnað rétt fyrir fjármálahrun að ástæðulaust væri að hafa áhyggjur, góða veðrið væri hinu megin við hornið. Allir þekkja framhaldið. Að vitna í svo veika heimild í skefjalausum áróðri fyrir einkavinavæðingu bankans segir eiginlega allt sem segja þarf um framlag Harðar til umræðunnar. Hjá því verður aftur á móti ekki komist að spyrja að ef sameining seðlabanka og fjármálaeftirlits er málið af hverju aðrar þjóðir hafa ekki fylgt fordæmi Íslendinga?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann snýr þessu öllu á hvolf.

Þegar ég horfi vítt og breitt um heiminn, og alveg sérstaklega til nágrannaríkja Íslands, þá er hvergi að finna það fyrirkomulag að seðlabanki og fjármálaeftirlit sé á einni hendi. Á umliðnum fáum árum þá er þróunin í öfuga átt við íslensku leiðina. Komið hefur verið á bæði lagskiptu og sérhæfðu eftirliti til að dreifa eftirlitsvaldinu í stað samþjöppunar. Að baki þessu er það einfalda viðhorf að ekki sé vænlegt að treysta á einn og sama aðilann um að hafa eftirlit með öllum sviðum fjármálakerfisins. Í því felst aukin áhætta í stað áhættudreifingar. Betur sjá augu en auga. Eða betur greina augu en auga. Sú hætta er fyrir hendi að innan stofnunar myndist hjarðhegðun þar sem allir elta misvitran forystusauðinn eins og gerðist í hruninu. Það er einfaldlega þannig að ekki er hægt að leggja alla ábyrgð á stöðugleika fjármálakerfisins á eina stofnun vegna geipilegra undirliggjandi hagsmuna. Síðan er það sérstakt vandamál þegar stjórinn laðar ekki inn hæfasta fólkið til starfa heldur einhverja þóknanlega já menn.

Samantekið, þá kallar röksemd Harðar á að ekki verði farið í einkavæðingu Íslandsbanka. Hann snýr þessu öllu á hvolf og er honum nokkur vorkunn vegna vanþekkingar á málefninu. Fyrst þarf að slíta  seðlabankann aftur í sundur. Ef ekki þá verður seðlabankinn sjálfur áfram hluti af hinni kerfislægu áhættu fjármálakerfisins. Samhliða þá þarf að setja þéttari girðingar milli fjárfestingarbanka og smásölubanka.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: