- Advertisement -

Er Icelandair að loka sjoppunni?

Þetta sýnir að Icelandair er ekki ómissandi eða þetta kerfislæga mikilvæga fyrirtæki fyrir Ísland.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Aðalfrétt Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var athyglisverð í ljósi nýliðinnar umræðu hér á landi. Þar sagði að Icelandair væri búið að aflýsa 75 prósent allra áætlunarferða það sem af er september. Á sama tíma hafi erlend flugfélög fellt niður 4 prósent ferða og flogið þrisvar sinnum oftar til og frá landinu. Þetta sýnir að Icelandair er ekki ómissandi eða þetta kerfislæga mikilvæga fyrirtæki fyrir Ísland. Alveg eins og þegar WOW air fór á hausinn þá einfaldlega fylla erlend flugfélög upp í skarðið og taka við þeim farþegum sem Icelandair treystir sér ekki til að þjóna. Nú, svo koma ný félög til sögunnar og fylla upp í ef ójafnvægi verður milli framboðs og eftirspurnar.

Aðgerðirnar hafa miðast við að verja hlutafé vildarvina Sjálfstæðisflokksins.

Þetta vekur athygli í ljósi þess að ríkisstjórn Bjarna Ben hefur haldið úti þeim ranga réttlætingar áróðri fyrir ríkisábyrgð upp á 15 milljarða króna til Icelandair að félagið sé svo mikilvægt. Staðreyndin er aftur á móti sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki trú á getu markaðarins til að bregðast við breyttum aðstæðum. Eða eigum við að segja sem er að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa hingað til verið rangar og tefja fyrir því að markaðurinn leysi sjálfur vandamálin með endurskipulagningu framleiðsluþátta hagkerfisins. Aðgerðirnar hafa miðast við að verja hlutafé vildarvina Sjálfstæðisflokksins eins og Bláa lónsins þar sem eiginkona Guðlaugs Þórs utanríkisráðherra er hluthafi.   

Miðað við daginn í gær þá hefur Icelandair flogið aðeins 37 ferðir af 135 áætluðum ferðum og voru fjórar niðurgreiddar af ríkinu. Erlend flugfélög hafa flogið 113 sinnum eða þrisvar sinnu oftar. Með þessum miklu niðurfellingum þá er Icelandair að valda sjálfum sér tjóni til framtíðar og efla erlenda samkeppni. Þetta sýnir að það eru flugferðirnar til og frá landinu sem eru mikilvægar, en ekki hvaða flugfélag flýgur ferðirnar. Í stað þess að verja kröfuhafa Icelandair fyrir skaðleysi þá á ríkisstjórn Bjarna Ben að nýta svigrúm og fella niður lendingagjöld og tengdan kostnað á Keflavíkurflugvelli. Þannig er flugsamgöngum til og frá landinu veitt vernd. Um leið er vörður staðinn um heilbrigða samkeppni í farþegaflugi neytendum til heilla. Þetta er aðgerð á eftirspurnarhlið hagkerfisins og í samræmi við eftirspurnarkreppuna sem ríkir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: