
Jóhann Þorvarðarson:
Orð Jakobs Frímanns geta ekki talist vera annað en ósæmileg. Flokkur fólksins og Alþingi Íslands geta ekki látið yfirlýsinguna standa átölulausa því þögn er sama og samþykki.
Líkamshár ýmissa vina Jakobs Frímanns stóðu í ljósum logum af geðshræringu eftir lestur greinarinnar „Er Jakob Frímann hallur undir nasisma“. Því miður þá var það af röngum ástæðum. Í greininni þá vitna ég í hans eigin orð um að innrás Rússa í Úkraínu sé ekki annað en skylmingar í fyrrum Sovétríkjunum, sem ættu ekki að hafa áhrif á Íslandi. Viðhorfið er í mínum huga ósiðlegt enda eru Rússar að fremja þjóðarmorð að hætti nasista í Úkraínu.
Ekki er hægt að skilja viðbrögð vinanna öðruvísi en svo að vegna þess að Jakob Frímann sé svo góður maður og vinur að þá eigi ekki að taka mark á orðum hans. Að hann sé froðusnakkur. Það er ódýr og óhaldbær afsökun enda eiga kjaftaskúmar ekki heldur neitt með að útvarpa öðrum eins sora. Jakob er vel máli farinn og reyndur í að tjá sig á opinberum vettvangi. Honum vafðist því engin tunga um tönn þegar hann sett fram sitt álit á stríðinu í Úkraínu.
Ég viðurkenni fúslega að hafa hugsað málið að nýju vegna viðbragðanna enda áfram um að forða líkamshárum vina Jakobs frá sinubruna. Því miður þá komst ég að sömu niðurstöðu. Orð Jakobs Frímanns geta ekki talist vera annað en ósæmileg. Flokkur fólksins og Alþingi Íslands geta ekki látið yfirlýsinguna standa átölulausa því þögn er sama og samþykki.
Niðurstaðan mín fékk mögulega enn meiri fótfestu eftir að ég kynnti mér innlegg Elínar Sigurðardóttur við grein mína á fésbókarsíðu SME. Þar setti hún inn netslóð á lag Stuðmanna „Stemmum stigu“ sem Jakob Frímann er höfundar að. Ég hvet alla til að finna textann á netinu, en læt samt þrjú vers fylgja að neðan. Ég skil textann svo að hann endurspegli útlendingaandúð, en vonandi skjátlast mér. Ef upp kemur viðbragð um að á ferðinni sé grín þá minni ég á að öllu gríni fylgir alvara.
Stemmum stigu
Stemmum stigu – í tæka tíð,
stemmum stigu – ár og síð.
Við viljum íslenskar jurtir í íslenskri mold
á eldgömlu Ísafold.
Reytum arfann – í tæka tíð
ræktum garðinn – ár og síð
já íslenskar jurtir í íslenskri mold
á eldgömlu Ísafold.
Á austrænu kjarri og afrískum njóla
innflutning stöðva nú skal,
þetta vex eins og arfi út um hæðir og hóla
og hylur brátt engi og dal.