
Næsta stoppistöð til hægri við hugleiðingar kaupmannsins er anarkismi.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Jóhann J. stórkaupmaður hefur að undanförnu skrifað greinar sem eru því marki brenndar að setja samasemmerki milli upprætingu fátæktar og minni skattheimtu. Hann vill meina að skattheimta ríkisins stuðli að fátækt. Og hann segir líka að skattheimta jafnist á við uppsöfnun auðs hjá ríkinu. Svo talar stórkaupmaðurinn um að 70% hluti þjóðarinnar eða þeir efnaminni eins og hann kallar hópinn sé alltaf að verða háðari ríkinu um framfærslu. Kaupmaðurinn ályktar síðan að efnaminna fólk búi hvorki við vald né sjálfstæði vegna þess að það á ekki eignir eða ekki nógu mikið af eignum. Sem sagt, það á að vera eftirsóknarvert að eiga eignir og hafa þar með völd eins og að það veiti hina sönnu innri hamingju. Hann botnar síðan sínar hugleiðingar og segir að í stað skattheimtu þá ætti ríkið að taka lán hjá fólkinu og borga því vexti. Það gengur ekki upp enda leiðir það til hringavitleysu og leiðir til enn meiri eigna- og tekjuójafnaðar en þekkist í dag. Tekið saman þá misskilur stórkaupmaðurinn orsök fátæktar.
Næsta stoppistöð til hægri við hugleiðingar kaupmannsins er anarkismi, þ.e. þjóðfélag þar sem ekkert opinbert vald er til staðar. Ég vil því benda honum á tvö atriði af fjölmörgum í von um að hann hugleiði málin betur og snúi af villu síns vegar.
Ríka konan lifir 10 árum lengur en sú fátækasta.
Sú þjóð sem komin er lengst í þeirri óheillaþróun að vilja draga úr öllu opinberu valdi og treysta eingöngu á öfl markaðarins er Bandaríkin. Hvergi í heiminum er misskipting eigna og tekna eins mikil og einmitt þar. Því er ágætt að draga fram eina snyrtilega staðreynd sem kjarnar vandann við hugmyndir kaupmannsins. Eitt prósent ríkasta fólkið í Bandaríkjunum lifir mun lengur en 1% fátækasta fólkið. Karlmaður í efsta laginu lifir 15 árum lengur en sá sem er í fátækasta hlutanum. Ríka konan lifir 10 árum lengur en sú fátækasta. Sá fátæki stritar og púlar alla sína ævi og mylur undir þann ríka. Hann greiðir síðan fyrir það með færri lífsárum! Þarna er því um að ræða þjófnað þess ríka á lífi þess fátæka án þess að þurfa að sæta á því sekt.
Hinn fátæki í Bandaríkjunum býr síðan við ólík lífsskilyrði en sá sem býr við ofgnótt. Sem dæmi þá er aðgengi að heilbrigðisþjónustu í tyggjólandinu ójafnt. Sá fátæki hefur ekki efni á aðgengi að læknum þar sem flest er einkarekið og dýrt.
Ég hef búið í Bandaríkjunum og þar er dýrt að nota alla innviði. Bara þetta klassíska atriði að rukka sífellt vegagjöld veldur því að ólík atvinnusvæði einangrast og færanleiki vinnuafls minnkar. Það út af fyrir sig eykur atvinnuleysi og minnkar hagvöxt.
Það er rannsökuð staðreynd að þar sem eigna- og tekjuójöfnuður vex hömlulaust þá molnar undan lýðræðinu og hlutleysi dómstóla. Að fara í vaxandi mæli í átt að anarkisma er mjög hættuleg þróun. Það hefur verið nokkuð áberandi í fréttum undanfarin misseri hvað er að gerast í Ungverjalandi og Póllandi, en þar er hlutleysi dómstóla undir árás frá auðvaldinu alveg eins og á Íslandi.
Það er ekki af ástæðulausu að billjónamæringar í Bandaríkjunum eins og Warren Buffet vara við þróun mála og krefjast þess að fá að borga hærri skatta!