- Advertisement -

Er Reykjavíkurborg griðastaður ofbeldisfullra yfirmanna?

Jóhann Þorvarðarson:

Gerandinn er tíðum aðili sem hefur boðvald yfir þolandanum og getur svipt hann lífsviðurværi sínu. Við þær aðstæður þá heykjast flestir á því að leita lausnar á málum.

Um fátt annað er rætt í samfélaginu en ofbeldismál af ýmum toga. Ljót er síðan sú hlið þegar aðilar sem taka ofbeldismál til meðferðar leggja sig fram um að hylma yfir verknaðinn. Mál Knattspyrnusambands Íslands er skólabókardæmi um hegðunina. Gripið er til allskyns loftfimleika til að hanna skjól eða grið fyrir gerendur. Aðilar eru tilbúnir að ganga afar langt í samtryggingunni með gerendum. Svo langt að menn eru jafnvel staðnir að raðlygum í fjölmiðlum. Margir komast upp með yfirhylminguna um hríð, en um leið er í raun verið að ráðast aftur að þolendum. Bæta gráu ofan á svart. Samfélagið, sem betur fer, er byrjað að hafna samtryggingunni eins og mál KSÍ endurspeglar svo vel. Staða þolenda fer batnandi þó enn sé langt í land.

Ég kynnti mér verklagsreglur Reykjavíkurborgar og þar er afstaðan til ofbeldismála forneskjuleg. Borgin aðhefst ekkert nema að baki uppljóstrun um ofbeldi, eins og til dæmis einelti, fylgi nafn þess sem kvartar og að viðkomandi sjái sér fært að koma fram undir nafni. Skipanin setur þolendur í vonlausa stöðu. Gerandinn er tíðum aðili sem hefur boðvald yfir þolandanum og getur svipt hann lífsviðurværi sínu. Við þær aðstæður þá heykjast flestir á því að leita lausnar á málum. Slíkt ófremdarástand getur hrakið þolandann til varanlegs heilsuleysis eins og opinberar gögn staðfesta. Ég trúi ekki öðru en að ráðandi kjörnir fulltrúar borgarinnar vilji gera hér bragabót á og uppræta ómenninguna. Reykjavíkurborg á ekki að vera griðastaður ofbeldismanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: