- Advertisement -

Er Seðlabankinn þöggunarstofnun?

Yfirlýsingin segir þó eitt umfram allt annað, Unnur og Ásgeir hafa látið undan þrýstingi frá Samtökum atvinnurekenda.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Innan Seðlabankans er starfrækt skipulagt eftirlit með tjáningu forystufólks stéttarfélaga um mögulega og ómögulega fjárfestingu lífeyrissjóða í hinu og þessu. Yfirskinið er að stjórnarmenn sjóðanna sem félögin tilnefna eiga að vera sjálfstæðir í sínum ákvörðunum og ekki lúta skuggastýringu. Unnur Gunnarsdóttir og Ásgeir Jónsson æðstu yfirmenn þöggunar Seðlabankans hafa bæði stigið fram opinberlega og haft uppi tilburði til að halda niðri stjórnarskrár vörðu tjáningarfrelsi forystufólks stéttarfélaga. Þessi hegðun er grafalvarleg og er misnotkun á opinberri stöðu beggja. Framganga tvíeykisins á sér enga lagastoð né hliðstæðu enda er hvergi ritað í lög að múlbinda megi nokkurn mann. Tilburðirnir minna óneitanlega á starfshætti njósnastofnunar gömlu Sovét, KGB. Þessi háttsemi hlýtur að koma til skoðunar í forsætisráðuneytinu þar sem málefni Seðlabankans eiga heima. Unnur og Ásgeir hafa farið gegn stjórnarskránni og siðareglum opinberra starfsmanna. Framgangan getur alls ekki staðið óátalin því hún er vont veganesti inn í framtíðina. Skilaboð um að bankinn geti þaggað niður frjálsa tjáningu forystumanna launþega. Best er ef bæði axli ábyrgð á misgjörðum sínum og óski lausnar frá störfum. Tjáningarfrelsið er mikilvægara en óskammfeilni tvímenninganna.

Þetta endar svo sem ekki hér því Ásgeir Jónsson telur sig einnig hafa löggjafarvald í landinu ef marka á hans eigin orð. Í nýlegu viðtali þá sagði hann orðrétt „Síðan má mögulega athuga með lagabreytingu svo það sé tryggt að stjórnarmenn séu sjálfstæðir og það útilokað að utanaðkomandi aðilar geti haft áhrif“. Ég þurfti að staldra við því mér svelgdist á mjólkursopanum við lesturinn. Mér er ekki kunnugt um að Seðlabankinn hafi löggjafarvald í landinu. Það er í höndum Alþingis og þjóðkjörinna fulltrúa. Ofan á annað þá virðist mikilmennskuæði hlaupið í Ásgeir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Yfirlýsing Ásgeirs endurspeglar hversu lítt hann virðir lagagrundvöll Íslands, stjórnarskrána. Ef koma á í veg fyrir frjálsar tjáningar þá þarf að breyta grundvellinum. Svo er það hitt að engin lög geta sagt til um hvort einstakur stjórnarmaður í lífeyrissjóði er fyllilega sjálfstæður í sínum störfum eða ekki. Á að koma upp einhverju rafrænu njósnakerfi? Á að elta uppi hvað viðkomandi les, við hverja er talað, á hvaða fréttatíma er hlustað, hvaða gögn eru lesin, með hvaða flugfélagi er flogið og svo framvegis. Þetta er auðvitað óhaldbær yfirlýsing hjá Ásgeiri. Yfirlýsingin segir þó eitt umfram allt annað, Unnur og Ásgeir hafa látið undan þrýstingi frá Samtökum atvinnurekenda. Samtök sem kvörtuðu nýverið til Seðlabankans yfir tjáningu forystumanna stéttarfélaga um leið og fullyrt var að trúverðugleiki bankans væri undir. Ógeðslegra verður það ekki og líkist atburðurinn upprisu fasisma á Íslandi.

Þeir sem eru andstæðingar frjálsrar tjáningar ættu aðeins að hugleiða sjónarhól stjórnarmanna lífeyrissjóða. Látið er eins og stjórnarmenn búi ekki yfir eigin hyggjuviti og getu til að sortera út réttar og nauðsynlegar upplýsingar til að taka bestu mögulegu fjárfestingarákvörðun hverju sinni. Inn í slíkt mat kemur aragrúi upplýsinga, fjölmörg viðhorf og margvísleg viðmið. Ekki er hægt að láta eins og stjórnarmenn sjóðsins búi ekki í sama samfélagi og sjóðsfélagarnir eða í einhverju tómarúmi. Þeir verða varir við gang mála úr öllum áttum og þeir sía síðan út viðeigandi upplýsingar til að undirbyggja ákvarðanir og stöðumat.

Stjórnarmenn eru ekki einhverjar strengjabrúður.

Ég leyfi mér að halda því fram að engin sem launþegahreyfingin hefur tilnefnt í stjórnir líti á það sem starfsferil að sitja í stjórn lífeyrissjóðs þó endurgjaldið sé myndarlegt. Telji viðkomandi sig beittan utanaðkomandi þrýstingi sem ekki er hægt að búa við þá á hinn sami alltaf möguleika á því að óska lausnar frá stjórnarsetu. Alveg eins og gerist með hlutafélög. Traust til stjórnarmanna hefst með tilnefningu og helst þar til annað kemur í ljós af margvíslegum ástæðum. Þetta traust takmarkar aftur á móti ekki tjáningarfrelsi forystufólks launþega og heimild til að skipta stjórn út þegar slíkt tilefni kemur upp. Það má færa fyrir því sterk rök að stjórnarmenn vilji heyra fjölbreytileg rök með og á móti tilteknum fjárfestingarkostum áður en endanleg fjárfestingarákvörðun er tekin. Augu sjá betur en auga. Þannig er gangverk fjármálamarkaðarins í lýðræðisríkjum sem búa við tjáningarfrelsi. Það er beinlínis heilbrigðismerki að sem flestir tjái sig um málefni lífeyrissjóða á opinberum vettvangi. Það er alla daga ársins betra enn að stunda ráðabrugg í lokuðum klíkuherbergjum um hvernig ráðstafa eigi lífeyrissparnaði landsmanna. Í þessu sambandi nægir að rifja upp reynslu þjóðarinnar frá árunum fyrir hrun og nýleg hryggðardæmi frá Bakka við Húsavík og United Silicon í Helguvík. Þar hefði betur verið hlustað á opinber varnaðarorð frá samfélaginu. Sama á við í dag.

Stjórnarmenn eru ekki einhverjar strengjabrúður. Á endanum þá leggja stjórnarmenn sig fram um að taka bestu ákvörðun og út frá settum markmiðum sjóðanna og samfélagslegri ábyrgð. Svo má ekki gleyma því að stjórnarmenn bera ábyrgð í samræmi við eigin atkvæðagreiðslu á stjórnarfundum. Seðlabankinn á að hætta öllum árásum á stjórnarskrána í þjónkun sinni við sérhagsmuni. Hann verður að standast þrýsting frá sérhagsmunaöflum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: