- Advertisement -

Er stærðin fyrirstaða?

Hvort fjárfestingarsjóðir séu of stórir fyrir tiltekið hagkerfi er ekki sérstakt vandamál.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Reglulega heyrast órökstuddar alhæfingar um að lífeyrissjóðir séu of stórir fyrir íslenskan fjármálamarkað eða íslenskt hagkerfi. Við lok síðasta árs þá las ég til dæmis skoðanapistil í Fréttablaðinu þar sem sagði orðrétt „Lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar óeðlilega mikið af skuldum ríkissjóðs og eru of stórir á innlendum hlutabréfamarkaði“.

Fyrir utan það að sýna samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum og rekstri þá eru það einkum tveir þættir sem í grundvallaratriðum stjórna fjárfestingarákvörðunum sjóða: ávöxtunarkrafan og áhætta. Seinna atriðið er flókið fyrirbrigði þar sem ýmislegt kemur inn í og er ekki efni greinarinnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Markmið fjárfestinga á ætíð að vera það að eignasafn sé þannig samsett að ekki sé hægt að ná hærri ávöxtun að gefinni tiltekinni áhættumælingu. Fyrstur til að leiða fram marktæka útreikninga í þessum efnum er nóbelsverðlaunahafinn Harry Markowitz sem kominn er áleiðis í hundrað árin í aldri. Síðar komu aðrir góðir fræðimenn með viðbótarframlög og má þar helst nefna annan nóbelsverðlaunahafa, William Forsyth Sharpe. Hann sýndi fram á að ávöxtunarkrafa hlutabréfa taki fyrst og síðast mið af næmni undirliggjandi rekstrar gagnvart kerfisáhættu. Þar er átt við áhættu sem ekki er hægt að losna við með myndarlegri dreifingu fjár milli ólíkra fjárfestinga.  Vinsæl er sú samlíking að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni ef ske kynni að einhver karfa yrði fyrir tjóni. Í framhaldinu var síðan sýnt fram á að hægt er að lækka áhættu enn frekar með því að fjárfesta innan margra ólíkra hagkerfa.

Þetta er það sem drífur ákvarðanir lífeyrissjóða áfram og eru þeir alltaf að breyta eignasafninu sínu til að ná fram besta samspilinu milli arðsemi og áhættu. Hvort fjárfestingarsjóðir séu of stórir fyrir tiltekið hagkerfi er ekki sérstakt vandamál út frá sjónarhóli sjóða svo lengi sem þeir ná hagstæðustu blöndunni. Hvenær stærðin verður fyrirstaða fyrir heilbrigt hagkerfi er aftur á móti spurning sem verður að svara á vettvangi stjórnmála og þá í beinu samhengi við myntmálin. Sjálfur tel ég að stærð lífeyrissjóða sé nú þegar orðið íslenskt hagstjórnar vandamál. Lítið nettó útflæði setur mikinn þrýsting á gengi krónunnar eins og síðasta ár sannar. Það út af fyrir sig veldur röskun á innbyrðis samhengi hagstærða.

Á einhverjum tímapunkti í framtíðinni getur staðan orðið þannig að þjóðin hafi ekki lengur val í þessum efnum heldur neyðist til að færa sig undir stórt myntsvæði. Við þær aðstæður getur samningsstaðan verið erfið. Þannig að það er betra að taka umræðuna fyrr en seinna á meðan þjóðin hefur einhverja stjórn á ferlinu og á valmöguleika í þessum efnum. Annað er ábyrgðarleysi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: