- Advertisement -

Er Sviss víti til varnaðar fyrir Ísland?

Jóhann Þorvarðarson:

Mér hefur þótt það óábyrgt að engar hömlur séu settar á Seðlabanka Íslands og ættu stjórnvöld núna að líta til reynslunnar frá Sviss og laga íslenska fyrirkomulagið. Áhættan, sem vofir yfir hagkerfinu er eins og tímasprengja og hana er hægt að aftengja.

Svissneski seðlabankinn hefur útskýrt peningamálastjórn sína þannig að til að viðhalda getu sinni til að grípa inn í markaðsverkið og halda upp falskri skráningu svissneska frankans að þá þurfi bankinn að eiga mikið af auðseljanlegum fjármálaafurðum. Þeim er síðan dreift yfir nokkur gjaldmiðlasvæði og er evrusvæðið og bandaríski dollarinn þar veigamest með samanlagt 76 prósent hlutdeild. Þar á eftir kemur breska pundið, japanska jenið og kanadíski dollarinn með samtals 17 prósent vægi í gjaldmiðlaeign bankans. Aðrar gjaldmiðlar telja svo 7 prósent. Þar er helst að finna ástralska dollarann, kínverska yanið, dönsku og sænsku krónuna, suður kóreska wonið og singapúrska dollarann.

Helsta eign bankans eru örugg erlend ríkisskuldabréf og telja þau 62 prósent eignasafnsins. Þar sem bréfin hafa borið afar lága vexti undanfarinn áratug vegna núll-vaxtastefnu Vesturlanda þá hefur bankinn mætt öðru veigamesta stefnumiði sínu um að viðhalda jákvæðu raungildi síns eignasafns með því að fjárfesta 36 prósentum af eignum í hlutabréfum og skuldabréfum gefnum út af traustum fyrirtækjum, sveitarfélögum og alþjóðastofnunum, sem staðsett eru utan Sviss. Slá má því föstu að Svissneski seðlabankinn sé í raun rekinn eins og hver annar fjárfestingarsjóður enda eru 97 prósent af öllum fjárfestingum bankans stjórnað innan húss.

Þar sem uppgjör bankans er í svissneskum frönkum þá þarf arðsemi fjárfestinga í hlutabréfum og skuldabréfum, öðrum en ríkisbréfum, bæði að jafna svissneska verðbólgu og vega upp stanslausa styrkingu svissneska frankans. Þetta hefur gengið upp því hlutabréfamarkaðir undanfarinn áratug hafa verið á einn veg upp á við eða þar til kóvít-19 reið yfir og innrás Rússa í Úkraínu hófst. Heimsverðbólgan fór þá úr böndunum, en ekki í Sviss enn sem komið er, og núll-vaxtastefnan leið undir lok. Þessir atburðir hafa opinberað hversu áhættusöm stefna bankans er. Glóruleysið safnaðist upp í eitt stórt uppistöðulón, sem gerði það mögulegt að stjórnvöld í Sviss gátu hummað vandann af sér eða allt þar til á síðasta ári.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sviss:

Við erum í raun að horfa upp á skólabókardæmi um hversu hættuleg stefna það er að seðlabankar fari gegn markaðnum og reyni að halda uppi fölsku gengi.

Nýverið tilkynnti bankinn um mesta tap í yfir 115 ára sögu bankans og nam það 18 prósentum af vergri landsframleiðslu í fyrra. Svo mikið er tapið að vænta má að eigið fé bankans minnki um 67 prósent. Ef nýhafið ár verður hálfdrættingur á við það síðasta þá verður eigið fé bankans uppurið að óbreyttu. Tapið má nánast að öllu leyti rekja til gengistaps. Bankinn breytti því um stefnu á síðasta ári í tilraun til að veikja frankann, en allt kom fyrir ekki. Frankinn dvelur áfram undir pari gagnvart dollar og er að dansa við pargildið gagnvart evrunni. Við erum í raun að horfa upp á skólabókardæmi um hversu hættuleg stefna það er að seðlabankar fari gegn markaðnum og reyni að halda uppi fölsku gengi.

Stöndugur franki hefur veitt Svissneska hagkerfinu verðbólguskjól, en sú vernd er af sama meiði og hið geipilega tap bankans. Óinnleyst verðbólga gæti hafa safnast fyrir í uppistöðulóni, sem brestur þegar frankinn breytir um kúrs.

Seðlabanki Íslands hefur eins og sá svissneski verið virkur í inngripum á gjaldeyrismarkaði til að halda upp fölsku gengi á krónunni og nema uppsöfnuð inngrip frá því núverandi seðlabankastjóri var skipaður um 7 prósentum af landsframleiðslu. Engar hömlur eru á því hversu langt íslenski bankinn getur gengið í þessum efnum, en til að viðhalda varaforðanum þá hafa erlendar skuldir landsins verið auknar. Afleiðingar inngripanna eru til dæmis ríkulegur vöruviðskiptahalli við útlönd og tafin verðbólga, sem nú kemur í bakið á landanum. Mér hefur þótt það óábyrgt að engar hömlur séu settar á Seðlabanka Íslands og ættu stjórnvöld núna að líta til reynslunnar frá Sviss og laga íslenska fyrirkomulagið. Áhættan, sem vofir yfir hagkerfinu er eins og tímasprengja og hana er hægt að aftengja.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: