Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Á dögunum mátti lesa fyrirsögnina „Verðbólga alltaf betri en verðhjöðnun“ á heimasíðu RÚV, en hana má rekja til viðtals við Ásgeir Brynjar Torfason. Staðhæfingin er þekkt innan hagfræðinnar þar sem verðbólga og verðhjöðnun eru taldir vondir kostir. Sá fyrri er þó talinn illskárri af ýmsum hagfræðingum. Að baki viðhorfinu er trú á að öfugt samband sé milli verðbólgu og atvinnuleysis. Með öðrum orðum, þá sé betra að leyfa verðbólgunni að spretta heldur úr spori svo lengi sem það viðheldur atvinnu og afköstum hagkerfisins uppi. Aðrir hagfræðingar segja þetta öfuga sambandið einfaldlega ekki til staðar. Benda máli sínu til stuðnings á fyrirbrigði sem kallast „stagflation“, en þá fer vaxandi verðbólga saman við hækkandi atvinnuleysi. Einnig er til sú blanda að lág verðbólga fari saman við lítið atvinnuleysi.
Taumlaus verðbólga er ávísun á efnahagslega sóun og aukinn ójöfnuð, sem getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. Verri afdrif, að mínu mati, en hlýst af verðhjöðnun. Þessu til stuðnings má nefna reynslu Íslendinga af fjármálahruninu árið 2008 þegar verðbólga fór í 18% og hélst há í nokkur ár. Á sama tíma rauk atvinnuleysi upp og var mikið allt fram til ársins 2014.
Að verðbólga sé betri en verðhjöðnun er afsprengi gallaðrar kapítalískrar hugsunar. Í grófum dráttum þá er verið að vernda fjármagnið, skuldsettar fjárfestingar, undir því yfirskini að það leiði til meiri atvinnusköpunar. Mál geta aftur á móti auðveldlega snúist upp í andhverfu sína eins og gerðist í fjármálahruninu. Þá stökkbreyttust skuldir vegna hruns krónunnar og taumlausrar verðbólgu. Eignaverð fór suður þrátt fyrir mikla bólgu og skuldir fóru norður. Skuldsettar fjárfestingar komust í uppnám hjá mörgum þar sem virði þeirra varð minna en áhvílandi skuldir. Eigið fé gufaði upp og greiðslugeta laskaðist. Veðköll fóru í gang og urmull fjölskyldna missti heimilin. Enn aðrir stóðu tæpt.
Ef Steingrímur, þáverandi fjármálaráðherra, og Vinstri græn hefðu staðið í lappirnar gagnvart kapítalinu árin eftir hrun þá hefðu heimili ekki lent í að vera með verðbólgu á skuldahlið heimilisbókhaldsins og verðhjöðnun á eignahliðinni. Hin meinta skjaldborg um heimilin hefði átt að snúast um að leiðrétta markaðsbrestinn með bakfærslu ástandsins til þess sem það var fyrir hrunið. Þá hefði jafnvægi komist á efnahagsreikning heimila. Um leið væri hrægömmum gert ómögulegt að innleysa hvalrekagróða í gegnum gömlu og nýju bankana því hann væri fuðraður upp.
Að slá því skilyrðislaust föstu að verðbólga sé betri en verðhjöðnun er hæpið og alveg sérstaklega í markaðsógöngum. Viðhorfið endurspeglar forgangsröðun um að kapítalið sé hafið yfir fólkið og sýnir óskammfeilni gagnvart nýliðinni fortíð. Ég hélt sannast sagna að menn væru hættir að halda skoðuninni einbert fram.