- Advertisement -

Er Tommi enn sofandi í vinnunni

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég mæli með að þingmenn flokksins mæti til leiks með vökulan huga og ræði grunnskipulag hagkerfisins í stað þess setja fram tillögu um að falsa hagtölur.

Þingmenn Flokks fólksins lögðu á dögunum fram lagafrumvarp þar sem lagt er til að húsnæðisliðurinn í verðbólgumælingum verði tekinn út. Máli sínu til stuðnings segir orðrétt í greinargerð með frumvarpinu „Til að sporna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar á heimilin er lagt til að húsnæðisliðurinn verði felldur út úr vísitölu neysluverðs. Þetta fyrirkomulag tíðkast víða, t.d. í verðbólgumælingum ESB.“ Fullyrðingin er röng eins og ég rakti lauslega í þessari grein hér Óhuggulegur boðskapur Framsóknarflokksins. Meginreglan hjá Vestrænum þjóðum er að hafa húsnæðisliðinn með í verðmælingum. Sjálfur þekki ég engin frávik þar á.

Evrópusambandið (ESB) fer örlítið aðra leið hvað húsnæðisliðinn varðar en til dæmis Norðurlöndin, en húsnæðiskostnað er svo sannarlega að finna í mælingum Eurostat. Það er gert í tveimur þrepum. Það fyrra er að mæla verðbreytingar húsaleigunnar. Seinna þrepið mælir viðhaldskostnað eigin húsnæðis. Evrópusambandið tekur síðan tillit til breytinga á kostnaði við fasteignaviðskipti: þóknun fasteignasala og opinber gjöld. Hugsunin að baki þessari leið er að horfa eingöngu á útgjöld sem kalla á fjárútlát á því tímabili sem til skoðunar er. Hækkun eignaverðs er því sleppt. Undanþegið eru þó viðskipti með nýbyggingar.

Eurostat gefur út sérstaka verðvísitölu vegna dvalar í eigin húsnæði (HPI / OOH) þar sem tekið er tillit til verðbreytinga á fasteignamarkaði. Hún er ekki hluti af samræmdu vísitölu Evrópusambandsins (HICP). Aftur á móti hefur formleg umræða og greining verið í gangi innan sambandsins hvort gera eigi breytingu hér á þannig að HPI verði hluti af HICP. Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir, en ef af verður þá er sambandið að færast í átt að vinnulagi Norðurlandanna. Á Íslandi þá er húsnæðisliðurinn reiknaður að jöfnu út frá þróun leiguverðs og fasteignaverðs.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eins og kemur fram í tilvísaðri grein hér að ofan þá eru Finnar hluti af Evrópusambandinu og evran er þeirra gjaldmiðill. Hjá þeim hefur komið fram að munur verðmælinga samkvæmt samræmdu vísitölu Evrópusambandsins og mælingum sem tíðkast á Norðurlöndum er ekki ýkja mikill. Og að munurinn virki í báðar áttir. Eins og sakir standa þá mælir samræmda vísitalan lægri verðbólgu í Finnlandi.

Flokkur fólksins er að rugla saman orsök og afleiðingu. Há verðbólga og vextir er ekki afleiðing verðbólgumælinga, heldur lélegrar hagstjórnar, íslenskrar krónu og galla í grunnskipan hagkerfisins. Ég mæli með að þingmenn flokksins mæti til leiks með vökulan huga og ræði grunnskipulag hagkerfisins í stað þess setja fram tillögu um að falsa hagtölur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: