Fréttir

Er verið að refsa Hafró?

By Miðjan

January 09, 2019

„Ég missti af einhverju; hvers vegna er verið að refsa Hafró? Móðgaði forstjórinn Kristján Loftsson, Þorsteinn Má eða einhvern ríkan? Hver hefur hag af því að leggja niður hafrannsóknir eða aðrar skyldur stofnunarinnar? Eða er þetta afleiðing af skerðingu veiðigjalda, útgerðin stendur ekki lengur undir að borga fyrir Hafró? Tengist þetta áhættumati í fiskeldi? Það vantar eitthvað í fréttirnar sem fjölmiðlar segja af þessu, kann einhver að botna söguna?“

Þannig skrifar Gunnar Smári um þá sérstöku stöðu að verið er að skaða starfsemi Hafrannsóknastofnunar, þar sem fjárframlög til stofnunarinnar voru fyrirvaralaust stórlækkuð með þeim afleiðingum að segja þarf upp mörgum starfsmönnum, leggja öðru rannsóknarskipi stofnunnar og draga verulega úr hafrannsóknum.

En hvers vegna?

Flestir sem tjá sig í umræðunni eru sannfærðir um að ástæða sé neikvætt mat Hafró á fiskeldi í sjó, en með því dregur úr ágóðavon margra.

Í fréttatilkynningu Hafró segir: „Hagrannsóknastofnun leggur til að ekki verði leyft eldi á frjóum laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá.“

„Þetta er nú ljóta glæparíkisstjórnin. Óháðar stjórnsýslustofnanir sem beygja sig ekki undir vilja auðvaldsins fá fyrst á sig lög til að afnema úrskurði stofnunarinnar (sem stangast á við stjórnarskrá) og eru svo skornar niður við trog. Hvílíkt hyski sem þið kusuð yfir ykkur,“ skrifar Gunnar Smári, sem hóf umræðuna.