- Advertisement -

Er viðsnúningur verðbólgu til hins verra í kortunum?

Jóhann Þorvarðarson:

Það kæmi mér því ekki á óvart að bankinn hækki vexti í næstu viku um 1 prósentustig, jafnvel meira, til að stemma stigu við hækkandi verðbólgu, veikari krónu og litlum vaxtamun gagnvart dollarnum.

Ársverðbólga hefur hjaðnað sex mánuði í röð í Bandaríkjunum. Farið úr 9,1 prósenti í 6,5 prósent á hálfu ári. Þetta jók vonir um að einhver bönd væru komin á hækkandi verð þar vestra. Þróunin kom samt ekki í veg fyrir að Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti í vikunni því undirliggjandi verðbólga er enn mikil. Þó undirliggjandi þættir hafi hjaðnað lítillega þá eru þeir enn í námunda við 6 prósentin. Það táknar að almenn verðbólga verður ekki útskýrð með þekktum verðsveiflum tiltekinna vöruflokka nema að litlu leyti.

Fjárhirslur einstakra fylkja í Bandaríkjunum eru hlaðnar peningum ef marka má orð Jerome Powels seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Féð kom frá alríkisstjórninni í formi stuðningsaðgerða vegna kóvít-19. Peningurinn er nýttur til að byggja upp lúna innviði og í stuðning við heimili. Þarna er því enn mikil uppspretta efnahagsspennu. Þrátt fyrir hagspennuna er Seðlabanki Bandaríkjanna hóflega bjartsýnn að verðbólga fari ekki á nýtt skrið. Ákvað bankinn því að hækka stýrivextina um aðeins fjórðung úr prósentustigi á miðvikudaginn. Breski og evrópski seðlabankinn fylgdu í kjölfarið og hækkuðu sína vexti um hálft prósentustig.

Strax á föstudaginn þá má segja að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi þurft að endurmeta álit sitt á stöðu hagkerfisins í Bandaríkjunum. Nýjar tölur um atvinnusköpun voru sjóðheitar, sérstaklega þegar haft er í huga að atvinnuleysi er lítið. Meira en hálf milljón starfa sköpuðust í janúar þegar væntingar miðuðu á 185 þúsund störf. Fyrir faraldurinn í venjulegu árferði þá var algengt að í janúar skapist fjöldi starfa sem er iðulega undir 200 þúsundum og alveg niður undir núllið. Þetta ásamt áframhaldandi launahækkunum og fjölgun vinnustunda endurspeglar meiri efnahagsspennu en vonir stóðu til. Gæti þetta því verið merki um svikalogn á umliðnum mánuðum og að verðbólga fari aftur af stað. Það myndi kalla á harðari og áframhaldandi vaxtahækkanir hjá Seðlabankanum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ekki er útilokað að efnahagsástandið, hegðun Samtaka atvinnulífsins í kjaraviðræðum og vitleysisgangur ríkissáttasemjara valdi því að hagkerfið lendi á endanum á maganum og renni eftir allri Miklubrautinni.

Ofangreind þróun hefur áhrif á Íslandi. Vaxtamunur landanna er gjarnan á bilinu 2-4 faldur til lengri tíma litið þar sem íslensku vextirnir eru hærri, en í dag þá er munurinn aðeins um fjórðungur. Á sama tíma þá er verðbólga á Íslandi í auknum vexti og komin í 10 prósent. Við bætist að yfirlýst stefna bankans er að hafa taumhald á gengishreyfingum krónunnar, sem hefur verið að veikjast markvisst frá lok maí. Eitt af tveimur aðaltækjum Seðlabanka Íslands í þessum efnum eru stýrivextir. Það kæmi mér því ekki á óvart að bankinn hækki vexti í næstu viku um 1 prósentustig, jafnvel meira, til að stemma stigu við hækkandi verðbólgu, veikari krónu og litlum vaxtamun gagnvart dollarnum. Með hækkuninni þá væru vextirnir á Íslandi komnir í 7 prósent, eða meira, á sama tíma og dollarinn ber 4,75 prósent vexti. Að teknu tilliti til meiri áhættu íslenska hagkerfisins þá má færa fyrir því rök að vaxtamunurinn sé í raun enginn og það mun framkalla enn hærri vexti á Íslandi ef ætlunin er að verja krónuna og hemja verðhækkanir.

Bankinn er í sjálfskapaðri klemmu því ákvarðanir hans á umliðnum árum leiddu af sér vöruskiptahalla, sem ógnar ytri stöðugleika hagkerfisins og gjaldeyrisforðanum. Sífelld inngrip á gjaldeyrismarkað og ólögmætt markaðssamráð staðfesta þetta. Til að losa um klemmuna þá hjálpar að krónan veikist, en um leið veldur það verðhækkunum. Svo er ekki hægt að líta fram hjá því að hækkandi vextir framleiða einnig verðbólgu að öllu öðru jöfnu. Þannig að íslenska staðan er flókin, grunnáhrifaþættir vinna í gagnstæða átt. Ekki er útilokað að efnahagsástandið, hegðun Samtaka atvinnulífsins í kjaraviðræðum og vitleysisgangur ríkissáttasemjara valdi því að hagkerfið lendi á endanum á maganum og renni eftir allri Miklubrautinni. Endi síðan út í skurði við Esjumel. Óöruggt er að verðbólgan gefi eftir við magalendinguna nema að þó nokkrum tíma liðnum. Þetta kallar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stöðugleika og neitar að víkja.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: