- Advertisement -

Atvinnulausir éti það sem úti frýs

Hinir atvinnulausu skulu bara éta það sem úti frýs á meðan og sætta sig kvillana sem fylgir viðvarandi fátækt.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ógeðfellt, ósamfélagslegt, ósvífið og ómanneskjulegt tal var í boði Halldórs Benjamíns Þorbergssonar og Jóhannesar Þórs Skúlasonar í vikunni. Báðir aðhyllast eigingjörn og úrelt úrræði í atvinnumálum nú þegar tugþúsundir manna eru atvinnulausir. Báðir fullyrða án nokkurs rökstuðnings að eina leiðin fram á við sé að einkageirinn fái einkaleyfi til margra ára til að auka umsvif sín svo vinna megi á einstaklega miklu atvinnuleysi í landinu. Í dag þá er það í námunda við 11,5 prósent.

Málið er bara að fái þeir að ráða mun það taka 5-6 ár að koma atvinnuleysi niður í 6 prósent ef það þá tekst hjá þessum eigingjörnu áróðurspésum? Sex prósent atvinnuleysi er sögulega séð mjög hátt. Hin hliðin á kröfugerð þessara umboðslausu manna er að tugþúsundir einstaklinga eiga að bíða eftir að einkageirinn dúlli sér við atvinnusköpun. Meðhöndla á atvinnulausa eins og hvern annan varahlut upp í hillu sem draga má fram þegar tilefni gefst til einhvern tímann í framtíðinni. Hinir atvinnulausu skulu bara éta það sem úti frýs á meðan og sætta sig kvillana sem fylgir viðvarandi fátækt. Kvilla sem munu á endanum auka útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála. Þarna tala pésar sem eru á svimandi háum launum hjá fyrirtækjum sem þegið hafa tugir ef ekki hundruð milljarða króna í fjárgjafir í gegnum ýmsar stuðningsaðgerðir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Boðskapurinn er sá sami og ríkisstjórn Katrínar Jak og Svandísar Svavars heldur út.

Boðskapurinn er sá sami og ríkisstjórn Katrínar Jak og Svandísar Svavars heldur út. Ég hef verið ólatur að benda á að samkvæmt nýjasta útspili ríkisstjórnarinnar þá mun þessi ríkisstjórn, fái hún að halda áfram eftir kosningar haustsins, taka sér öll þessi ár í að koma fólkinu úr ánauð. Á meðan ætla þau sjálf að maka krókinn á sínum milljóna króna mánaðarlaunum. Ég hef einnig verið ólatur að benda á að stjórnvöld í Bandaríkjunum tóku sér eitt ár í að koma atvinnuleysinu úr rúmum 14 prósent og niður í 6 prósent. Hverju sætir? Svarið er einfalt, þar vestra hafa stjórnvöld sett í gang afar myndarlegar örvunaraðgerðir á eftirspurnarhlið hagkerfisins (neytenda megin). Ríkisstjórn Íslands hefur meira verið að vernda hlutabréfaeign vildarvina sinna.

Kosningarnar í haust munu snúast um hvort hér á landi eigi að vera manneskjulegt samfélag eða hvort líta eigi á atvinnulausa sem hverja aðra kúlulegu. Varahlut sem bíður þess að fá hlutverk eftir þóknanleika manna eins Halldórs Benjamíns og Jóhannesar Þórs. Manna sem sogað hafa offjár úr ríkissjóði með hótunum og óhaldbærum dómdagsspám.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: