- Advertisement -

Eru kosningar í farvatninu?

Jóhann Þorvarðarson:

Út frá þessu mætti lesa að miklar jarðhræringar séu við ríkisstjórnarborðið og innan raða Vinstri grænna. Fasið segir sína sögu.

Margt má lesa úr óvæntri og breyttri háttsemi fólks. Hjá mörgum þá er þetta taktík þegar ná þarf fram ávinningi, sem kominn er undir vilja annarra. Þá er reynt að ganga í augun á markhópnum með því að vera prúðbúnari en oftast nær og slegið er um sig með tjáningu um vinsæl málefni. Þetta er ákveðin tegund af sölumennsku, ímyndarsköpun. Fólk reynir ýmist að vera álitið ábúðarfullt, léttleikandi, trúverðugt, traustsins vert, áreiðanlegt, ábyrgt, heiðarlegt og þar fram eftir götum. Margt er gert til að ganga í augun á þeim sem skipt geta sköpum. Síðan eru þeir til sem þyrla upp ryki með fölskum áróðri eins og við sjáum í Íslandsbankamálinu. Treyst er á að fólk láti blekkjast eða nenni ekki að leita uppi sannleikann.

Hegðunin er dæmigerð fyrir stjórnmálamenn þegar kosningar eru í aðsigi eða þegar pólitískir stórskjálftar ríða yfir og óvæntar kosningar gætu verið í nánd. Þá er hárgreiðslustofan heimsótt oftar og spariklæðnaður dreginn fram. Frambjóðendur gefa þá í auknu mæli kosta á sér í viðtöl og er tilbúið í allskyns uppátæki ef það veitir jákvæða athygli. Kökubakstur Bjarna Ben er þekkt tiltæki og fatarónar eins og Brynjar Níels sjást skyndilega í dýrari jakkafötum eða furðulegri peysu, sem vekur kátínu.

Út frá þessu þá ætla ég að leyfa mér að segja að ég sjái breytta hegðun nú um stundir hjá Katrínu Jakobsdóttur. Hún kemur óvenju oft fram við hin ýmsu tilefni. Eiginlega of oft. Þar má til dæmis nefna Vikuna hjá Gísla Marteini, Hraðfréttir, Hringbraut og Sprengisand. Hún vill bæta ímynd sína hjá þjóðinni, sem er alvarlega löskuð. Pólitísk inneign hennar stefnir nefnilega í yfirdrátt. Og verðskuldað enda sjá margir hana sem sjálfstæðismann í dulargervi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vinkona hennar hún Svandís er á sömu slóðum og gefur æ oftar færi á sér. Núna síðast þá mætti hún uppábúin í sjónvarpsviðtali á RÚV og augljóst var að hún var nýkomin úr hárlagningu. Mér sýndist vinkonurnar einnig hafa skerpt á eigin háralit. Alla vega var hún Svandís búin að lita yfir gráu strípurnar svona til að fela tímans tönn, en andlitið lýgur engu. Út frá þessu mætti lesa að miklar jarðhræringar séu við ríkisstjórnarborðið og innan raða Vinstri grænna. Fasið segir sína sögu.

Sama á við um Framsókn. Yfirlýsingar flokksins um að hann vilji skattleggja ofurhagnað sjávarútvegsins, myndir af Sigurðar Inga slökkva eld og grátleg staðhæfing um að vegakerfið hafi aldrei verið betra segir ýmislegt. Samt vita allir að formaðurinn vill engu breyta í sjávarútveginum og að vegakerfið er hrunið víða um landið. Síðan er það hitt að Sigurður Ingi hefur lýst því yfir að hann vilji færa fiskveiðiauðlindina til fárra aðila með því að úthluta fiskveiðikvótanum til 23 ára í senn og þar með drepa alla nýliðun í stéttinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: