- Advertisement -

Eru lífeyrissjóðirnir skaðabótaskyldir?

Nauðsynlegt er að samkomulagið verði rofið strax og lífeyrissjóðir hugi eingöngu að hagsmunum sjóðfélaga.

Jóhann Þorvarðarson skriffar:

Í gildi er skaðvænlegt samkomulag milli Seðlabanka Íslands og lífeyrissjóða landsins. Samkomulag sem gengur gegn hlutverki lífeyrissjóða, en þeir hafa fallist á að fjárfesta ekki erlendis í tiltekinn tíma. Tilgangurinn er að verja krónuna, en það er bara ekki í verkahring lífeyrissjóða að vera samábyrgir með Seðlabankanum fyrir gengismálum landsins eða vera aðilar að ólöglegu verðsamráði á gjaldeyrismarkaði.

Samkomulagið er með öllu óeðlilegt enda hamlar það sjóðina í að sinna hlutverki sínu sem er að ná sem bestri ávöxtun iðgjalda með viðeigandi áhættudreifingu. Nú um stundir þá er mikið af góðum fjárfestingatækifærum erlendis eftir miklar verðlækkanir á mörkuðum. Að fjárfesta erlendis er beinlínis skylda hjá lífeyrissjóðunum út frá áhættudreifingu eigna og til að koma í veg fyrir bólumyndanir eignaverðs á Íslandi. Slíkt gerðist í kjölfar hrunsins þegar lífeyrissjóðir voru lokaðir inni í íslensku hagkerfi með sitt fé. Viðvarandi verðbólur draga úr samkeppnishæfni hagkerfa og auka innbyggða áhættu. Áhætta sem ekki er hægt að stöðva ef hún raungerist. Í besta falli yrði það ógnardýrt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nauðsynlegt er að samkomulagið verði rofið strax.

Í stað samkomulags við lífeyrissjóði landsins þá gat Seðlabankinn gripið til nærtækara úrræðis lögum samkvæmt og hann getur enn gripið til úrræðisins. Bankinn getur einfaldlega tekið krónuna tímabundið af markaði og komið öðru verðmyndunarkerfi tímabundið upp. Þess í stað þá eru lífeyrissjóðirnir munstraðir í samkomulag sem getur leitt til skaðabótaskyldu þeirra. Hér á ég einnig við persónulega ábyrgð þeirra sem stjórna lífeyrissjóðunum og skaðabótaskyldu Seðlabankans (ríkisins). Ólíkum hagsmunum ýmissa hagaðila sem treysta á gagnsæja verðmyndun krónunnar á markaði er ógnað með samkomulaginu. Seðlabankinn er að makka með einkaaðilum út í bæ um verðmyndun á gjaldeyrismarkaði og er það andstætt samkeppnislögum enda er samkomulagið ígildi verðsamráðs. Nauðsynlegt er að samkomulagið verði rofið strax og lífeyrissjóðir hugi eingöngu að hagsmunum sjóðfélaga.

Auðvelt er að ímynda sér að fyrirtæki eins og Samherji eða Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum höfði skaðabótamál vegna röskunar á gangverki gjaldeyrismarkaðarins. Bæði fyrirtækin og fleiri til hafa áður höfðað skaðabótamál gegn ríkinu eða Seðlabankanum. Síðarnefnda fyrirtækið heldur í dag sínu skaðabótamáli gegn ríkinu í makríldeilunni til streitu vegna þess að stöðin telur sig hafa fundið makrílinn upp. Það er hægt að nefna fjölmörg önnur fyrirtæki sem hafa hag af því að krónan veikist og dettur mér auðveldlega í hug Bláa lónið sem hefur mikinn áhuga á almannafé samanber til dæmis nýting fyrirtækisins á hlutabótaleiðinni. Hagsmunum Bláa lónsins er nefnilega betur borgið með meiri veikingu krónunnar. Á meðan lífeyrissjóðirnir eru á hliðarlínunni þá veikist krónan minna en ella og það vinnur gegn hagsmunum fyrirtækja í ferðaþjónustu og útvegi. Þannig að lífeyrissjóðirnir verða að rjúfa samkomulagið til að koma sér undan mögulegri skaðabótaskyldu. Svo á Seðlabankinn að nota þau stýritæki sem löggjafinn hefur veitt honum í stað þess að standa í ráðabruggi með einkaaðilum. Stöðva þarf þetta leikrit um að krónan geti verið á frjálsum markaði. Fyrir utan þetta samkomulag þá stundar bankinn reglubundin inngrip og truflar þannig gangverk markaðarins úr mörgum áttum. Það er ein stór blekking að halda að krónan geti verið á opnum markaði, hún er tifandi tímasprengja!

Það er álitamál hvaða gagn það gerir til lengri tíma litið að halda lífeyrissjóðum á hliðarlínunni í svo og svo langan tíma. Verið er að færa eftirspurn sjóðanna eftir erlendum gjaldeyri til í tíma og búa til risavaxið eftirspurnarlón. Þegar lónið brestur þá mun krónan gefa eftir með miklum hvelli nema bankinn ætli að nota gjaldeyrisforðann til inngripa í meira mæli en þekkst hefur hingað til. Ef svo er þá er verið að búa til annars konar hagvandamál sem er ekki umræðuefni þessa pistils.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: