- Advertisement -

Eru lögbundin lágmarkslaun nauðsyn?

Frjálsir kjarasamningar hafa því mistekist.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Kjarasamningar sem tryggja ekki lágmarkslaun sem duga til framfærslu eru þjóðhagslega óhagkvæmir. Atvinnurekendur hafa ekki viljað tryggja þannig ákvæði í kjarasamningum. Eru atvinnurekendur því ábyrgir fyrir sóun efnahagslegra gæða, minni framlegð og hærri ríkisútgjöldum en ella. Frjálsir kjarasamningar hafa því mistekist.
 
Í grófustu dráttum má flokka afleiðingar láglaunastefnu atvinnurekenda í tvennt:
 
1. Framleiðni vinnuafls og gróði fyrirtækja minnkar.
 
2. Heilsuleysi lægstu launþega er vaxandi efnahagslegt vandamál. Atvinnuþáttaka minnkar  og rekstrarkostnaður heilbrigðis- og velferðarkerfisins eykst. Það kallar á hærri skatta.
 
Hvað er þá til ráða ef frjálsir samningar skila ekki þjóðhagslega hagkvæmum kjarasamningum. Svarið er ekki flókið og hefur alltaf blasað við. Setja ætti lög um lágmarkslaun sem duga til framfærslu.
 
Vert er að hafa orð á því að þau tvö ríki sem kenna sig við mesta frelsið í viðskiptum í heiminum, Bandaríkin og Bretland, hafa í gildi lög sem tryggja lágmarks tímakaup.
 
Með lögbindingu lágmarkslauna sem duga til framfærslu verður gerð kjarasamninga einfaldari, ódýrari og líkur á verkföllum minnkar. Eftir stendur að semja þarf um laun þeirra sem ofar eru í launastiganum. Með tímanum mun síðan bil hæðstu og lægstu launa minnka og aukinn jöfnuður nást. Það væri þjóðhagslega hagkvæmt.
 
Það er aðkallandi að atvinnurekendur temji sér jákvætt hugarfar gagnvart þeim lægst launuðu. Telst það ekki einkamál atvinnurekenda að fara illa með efnahagsleg gæði og draga framleiðni vinnuafls niður í landinu. Misnotkun á samningsfrelsinu er andstætt hagsmunum þjóðarinnar. Lagasetning gæti því verið nauðsynleg til að verja umhverfisvænan hagvöxt.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: