- Advertisement -

Eru menn fullir upp í Hæstarétti?

Frá Hæstarétti bárust tvö svör í kross, bæði lagalega röng og var beiðninni hafnað.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég fullyrði ekkert en þau vinnubrögð sem mér mættu í Hæstarétti fá mig til að spyrja hvort dómarar réttarins séu allsgáðir í vinnunni og hvort rétturinn sé bara fyrir vildarvini?

Málið er að ég sótti um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar vegna klofins dóms Landsréttar. Í sératkvæði dóms Landsréttar nr. 125/2019 segir orðrétt „Sem fyrr segir er ekki ágreiningur meðal dómenda um að vinnubrögð stefnda við verðmat fasteignarinnar hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gera mátti til hans. Vinnubrögðin voru því saknæm. Þá liggur fyrir matsgerð dómkvadds manns þess efnis að hæfilegt söluverð fasteignarinnar hafi verið vanmetið um 13.000.000 króna.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eins og kemur fram í dómnum voru vinnubrögð Hafdísar Rafnsdóttur starfsmanns Fasteignasölunnar Torgar í Garðabæ saknæm og ollu sönnuðu tjóni. Meirihluti dómenda ákvað hins vegar á grundvelli ímyndaðra „grandsemi“ umboðsmanns seljanda fasteignarinnar sem um ræðir að sleppa fasteignasölunni við að greiða skaðabætur. Hæstiréttur hafði áður dæmt í öðru máli af sama toga og komist að niðurstöðu að grandsemi losi fasteignasala ekki undan ábyrgð. Landsréttur hunsaði dómafordæmið og lögin sem gilda um skaðabótaábyrgð fasteignasala.

Vegna almenns og persónulegs mikilvægis málsins og réttaróvissu sem komin er upp varðandi neytendavernd í fasteignaviðskiptum þá er nauðsynlegt að Hæstiréttur taki málið fyrir. Óskaði ég því eftir áfrýjunarleyfi.

Frá Hæstarétti bárust tvö svör í kross, bæði lagalega röng og var beiðninni hafnað. Í fyrra svarinu vísaði Hæstiréttur í kolranga lagagrein sem á ekki erindi. Rétturinn ruglaðist ekki bara á lagagrein heldur heilum lagakafla. Rökstuðningurinn sem fylgdi var í ágætu samræmi við þessa röngu lagagrein þannig að ekki var um innsláttarvillu að ræða. Eftir fyrirspurn hvort rétturinn stæði við svarið kom annað og ekki betra svar. Nú var vísað í rétta lagagrein, en gamli rökstuðningurinn var að mestu óbreyttur. Þannig að svörin eru eitt stórt rugl.

En það er meira. Rökstuðningurinn er meingallaður og sjá má að heilt lagahugtak var flutt hreppaflutningum milli ólíkra lagakafla og lagagreina til að komast að neikvæðri niðurstöðu fyrir mig. Ef löggjafinn (Alþingi) hefði ætlað að notast við þetta tiltekna lagahugtak í lagagreininni sem gildir í málinu þá hefði það verið skrifað inn. Löggjafinn notaðist hins vegar við allt annað orðalag og setti tvö skýr skilyrði sem dómurum ber skylda að fara eftir þegar áfrýjunarbeiðni er tekin fyrir. Nægjanlegt er að uppfylla annað skilyrðanna til að fá áfrýjunarleyfi. Mitt mál uppfyllir bæði.

Hæstiréttur fullyrti í seinna svarinu að ég hefði ekki verulega persónulega hagsmuna að gæta í málinu. Í lögunum er nefnilega kveðið skýrt á um það að Hæstiréttur skuli líta til þess hvort úrslit máls varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar leyfis (annað tveggja skilyrða sem ég nefndi áður).

Nú af hverju var ég að fara með málið fyrir dómstóla? Var ég bara að leika mér. Svona rúlla einni dægrastyttingu í gegnum dómskerfi með tilheyrandi kostnaði. Klúður Hæstaréttar er að rétturinn þurfti ekki að leggja neitt mat á það hvort ég hefði mikla persónulega hagsmuni að gæta í málinu. Löggjafinn var búinn að senda skýr skilaboð um að fasteignaviðskipti varði mikla þjóðhagslega og persónulega hagsmuni. Skoðum hvað dómsmálaráðherra hafði að segja úr ræðustól Alþingis þegar hann lagði fram lagafrumvarpið sem varð að þeim lögum sem gilda í málinu:

Það þarf að hafa í huga við skipan reglna um milligöngu um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa að viðskiptin eru afar þýðingarmikil, hvort sem litið er á þau frá þjóðhagslegu sjónarhorni eða þeirra einstaklinga og lögaðila sem standa að viðskiptunum hverju sinni. Svo tekið sé dæmi um fasteignakaup þá snúast þau nánast alltaf um aleigu fólks og stundum lögaðila og líka drjúgan hluta af framtíðartekjum viðkomandi.“

Afstaða löggjafans er afdráttarlaus. Hæstiréttur segir samt að málið hafi hvorki almennt gildi né fyrir mig persónulega! Rétturinn er búinn að mynda sér sína einkaskoðun á því hvað er mikilvægt í þessum efnum. Svona eins og tíðkast hjá einkaklúbbum innvígðra og innmúraðra.

Nú á ég bara tvö úrræði. Annað er að láta þetta yfir mig ganga og hitt að fara með málið fyrir Mannréttindardómstól Evrópu (MDE). Ísland er orðið ansi fyrirferðarmikið hjá MDE og segir það mikið um slæma stöðu íslenskra dómstóla.

En hver er hin almenna niðurstaða? Jú, Hæstiréttur er ekki fyrir alla landsmenn. Búið er að einkavinavæða dómskerfið!

Aðeins um Benna besta vin:

Benedikt Bogason hæstaréttardómari fékk áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar vegna tjáningar Jóns Steinars um störf Benedikts við réttinn. Benedikt er víst súr og vill takmarka stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi landsmanna um störf dómstóla. Hann segir Jón Steinar nota of sterk lýsingarorð og að úrslit málsins eigi að hafa verulegt almennt gildi. Þetta eru samt bara tveir karlar að argast út í hvor annan.

Í áfrýjunarbeiðninni notaði Benedikt meðal annars þau rök að Landsréttur hafi ekki tekið mið af dómaframkvæmd MDE. Einmitt hugsaði ég, alveg eins og ég gerð í eigin áfrýjunarbeiðni þegar ég vísaði í dómafordæmi Hæstaréttar! Já, það skiptir öllu máli hvort þú ert Benni besti vin eða almúgamaður eins og ég. Hæstiréttur er nefnilega  „only VIP“  eða  „only very important persons“.

Áhugaverðar upplýsingar um tengsl aðila:

Klofinn dóm Landsréttar dæmdu Hervör Þorvaldsdóttir frænka Davíðs Oddssonar og Aðalsteinn E. Jónasson eiginmaður Ásdísar Höllu Bragadóttur sjálfstæðiskonu. Bróðir Hervarar er Börkur Þorvaldsson Hæstaréttardómari (hann úrskurðaði ekki í þessu máli). Sératkvæði í málinu skilaði Eiríkur Jónsson prófessor í lögum.

Í héraði þá flutti Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir mál gagnaðila í málinu. Hún vinnur á sömu skrifstofu og Hróbjartur Jónatansson sem flutti málið í Landsrétti. Guðfinna Jóhanna er í sambúð með Davíð Þór Björgvinssyni varaforseta Landsréttar. Davíð Þór er náinn samstarfsmaður Hervarar Þorvaldsdóttur forseta Landsréttar sem dæmdi í málinu eins og sagði!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: