
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Svo myndi líka losna um hundruð milljarða króna úr gjaldeyrisvaraforða landsins á sama tíma og fyrirsjáanleiki myndi verða daglegt brauð með nýjum gjaldmiðli.
Háir og hratt hækkandi stýrivextir á Íslandi eru áhyggjuefni þegar allt er vegið og metið. Fyrir það fyrsta þá draga hærri vextir en í kringum okkur úr samkeppnishæfni landsins. Í annan stað þá er verið að niðurgreiða krónuna, en bara hluti landsmanna ber þann kostnað. Eða þeir sem skulda. Þá á ég bæði við heimili og fyrirtæki. Í þriðja lagi þá stuðla háir stýrivextir að auknum ójöfnuði, sem ekki er lögbundið hlutverk Seðlabankans. Bankinn er því farinn að seilast inn á hið pólitíska svið. Og ekki er það nú í fyrsta sinn síðan Ásgeir Jónsson hreiðraði um sig við Arnarhólinn. Í fjórða lagi þá raska háir vextir samkeppninni milli skuldugra og óskuldugra fyrirtækja þeim síðarnefndu í hag. Eitthvað sem er vont fyrir samfélagið, hækkar verðlag.
Sem sagt, krónan og háir vextir henni tengdri eru skaðræðisgripir. Það eru samt engar málefnalegar ástæður fyrir því að stýrivextir á Íslandi þurfi að vera á sterum. Hér ræður öllu að alþjóðasamfélagið ber ekki traust til krónunnar og reynir Seðlabankinn því að beita tælingu með hærra vaxtarstigi en þekkist hjá nálægum löndum. Hærri vöxtum er ætlað að laða að erlent fjármagn og minnka útstreymi fjár. Við gætum aftur á móti náð sama árangri án þess að kosta öllu til sem að ofan er rakið ef við værum með traustan og trúverðugan gjaldmiðil.
Um 86 prósent af öllum heimsviðskiptum fara fram í evrum og dollar. Þarna á milli ríkir stöðugleiki. Það er því ekki eftir neinu að bíða. Svo myndi líka losna um hundruð milljarða króna úr gjaldeyrisvaraforða landsins á sama tíma og fyrirsjáanleiki myndi verða daglegt brauð með nýjum gjaldmiðli.
Á myndinni sem fylgir þá sýni ég stýrivextina eins og þeir standa í dag hér og í löndunum í kringum okkur. Til aukreitis þá lauma ég Nýja Sjálandi með. Sláandi munurinn verður ekki rakinn til hærri verðbólgu á Íslandi heldur ástæðna sem ég nefndi áður. Það er því kominn tími til að vekja forsætisráðherra af þyrnirósarsvefni þekkingarleysis og hætta þjónkun við auðvaldið í myntmálum.
