
Jóhann Þorvarðarson:
Það gerðist aldrei og sótið féll áfram. Eða þar til seðlabankastjóri leit út eins og sótraftur. Ekki sást í annað en hvítuna í augunum. Missagnir þekkjast á ýmsum stöðum og loða lygilega vel við Seðlabankastjóra.
Það er ekkert lát á gaslýsingu seðlabankastjóra á stöðu íslenska hagkerfisins. Nýjasta útspilið er að kerfið sé heilbrigt. Hann sagði í vikunni að vöxturinn í hagkerfinu sé búinn að vera heilbrigður.
Ef hagkerfið færi í áhættumat hjá Hjartavernd þá yrði það sent í gjörgæslu á hjartadeild Landsspítalans. Mikið magn aukaslaga er á ferð og hjartaónot er viðvarandi. Hengdur yrði Holtermælir um háls þess. Verðbólga sýnir hættuleg blóðþrýstingsgildi og blóðfitan er ógnvænleg. Gálgavextir Seðlabankans blóðga síðan fjölmörg heimili eins og ofnotkun blóðþynningarlyfja gerir. Framvirkt þá mun atvinnuleysi aukast á næstu misserum og verða vaxandi áhættuþáttur. Við núverandi aðstæður þá erfiðar hjartað og er stækkandi. Stefnir í að brjóstholið rúmi ekki hjartað.
Hagkerfið er einfaldlega á leið í hjartaslag að óbreyttu vegna stíflaðra kransæða. Þetta er raunveruleikinn sem við búum nú við. Enginn ábyrgur læknir fengist til að gefa út heilbrigðisvottorð við þess aðstæður. Og enginn myndi segja vöxt hjartans vera heilbrigðan.
…vill vera álitinn betri en hann er, kannski mikilmenni.
Það er því sérstakt rannsóknarefni af hverju seðlabankastjóri getur ekki horft raunsönnum augum á hlutina og gengist við mistökum við peningamálastjórnina, en ég er með rannsóknartilgátu. Hún er sú að seðlabankastjóri vill vera álitinn betri en hann er, kannski mikilmenni. Skáldar hann því upp hliðarveruleika eins og Truman Burbank bjó í.
Allt minnir þetta mig á þegar seðlabankastjóri var yfirmaður hjá Kaupþing banka og sat í miðjum brunarústunum. Lýsti hann þá yfir að skuldatryggingarálag íslensku bankanna myndi lækka. Það gerðist aldrei og sótið féll áfram. Eða þar til seðlabankastjóri leit út eins og sótraftur. Ekki sást í annað en hvítuna í augunum. Missagnir þekkjast á ýmsum stöðum og loða lygilega vel við Seðlabankastjóra.