Fréttir

Fjandvinirnir ósammála um Framsókn

By Miðjan

September 12, 2019

Fjandvinirnir Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson töluðu hvor í sína áttina um stöðu Framsóknarflokksins í gærkvöld

„Ráðherrar Framsóknar hafa unnið gott starf,“ sagði Sigurður Ingi.

„Áhrifaleysi minnsta flokksins í þessari ríkisstjórn kemur líklega engum á óvart lengur, enda flokkurinn löngu búinn að sýna að hann sé til í hvað sem er bara ef hann fær að vera með, og virðist ánægður með að fá að kynna sömu málin aftur og aftur,“ sagði Sigmundur Davíð og átti við Framsókn.

„Framsókn hefur í gegnum tíðina verið framsækinn samvinnuflokkur, já, sem hefur skýra stefnu um samvinnu sem hann tekur með sér inn í ríkisstjórn og hefur haft með afgerandi hætti áhrif á íslenskt samfélag, fylgt því meira en 100 ár. Saga flokksins er samofin sögu þjóðar,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigmundur Davíð horfði víðar og vék að flokki Bjarna Benediktssonar: „Það hefur hins vegar komið mér meira á óvart að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn lætur yfir sig ganga af hálfu leiðandi flokksins í ríkisstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn var með ráðherra sem mátti eiga það að hann var pólitískur og virtist ætla að fylgja ákveðinni stefnu. Vinstri græn sáu hins vegar um að koma þeim ráðherra úr ríkisstjórninni.“