
Einhvers staðar í heiminum kalla menn svona framkomu mútur.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Forsendur eru brostnar frá síðustu kosningum og ekki hægt að horfa upp á Bjarna Ben og ríkisstjórnina ganga um hirslur ríkisins eins og óreiðumenn. Eftir kynningu helgarinnar á aðgerðum vegna veirufaraldsins hafa tvö ný útspil komið frá fjármálaráðherra:
Fyrra útspilið
Fjármálaráðherra mælir með að landsmenn kaupi íslenskt til að stjaka við innlendri framleiðslu. Hann hirðir ekkert um þá hringrás sem fer af stað ef allir myndu hlaupa til. Til skemmri tíma getur verið óhægt um vik að auka innlenda framleiðslu. Þannig að aukin eftirspurn eftir innlendri vöru þegar hjólin fara aftur af stað mun leiða til verðhækkana og draga úr erlendri samkeppni. Verðbólga mun hækka í 6% að mínu mati bara vegna þessa atriðis. Þá munu verðtryggð lán hækka og hefst þá meiri eignatilfærsla frá skuldurum til fjármagnseigenda en ella. Það út af fyrir sig lækkar síðan ráðstöfunartekjur fólks sem aftur minnkar eftirspurn sem ekki endilega lækkar verð. Íslenskir kaupmenn hafa nefnilega sýnt mikla færni í því að gefa ekki til baka verðhækkanir. Afleiðingin er sú að við munum sitja uppi með enn dýrara land, kjarasamninga í uppnámi og aukinn ójöfnuð. Síðast talda atriðið dregur úr sjálfbærum hagvexti. Þannig að hvatning Bjarna Ben er ein stór hringavitleysa.
Þannig að hvatning Bjarna Ben er ein stór hringavitleysa.
Láglaunafólk sem veltir hverri krónu fyrir sér hefur ekki efni á öðru en að kaupa það sem hagkvæmast er hverju sinni. Að biðja launafólk um samstöðu mátast síðan illa við sýnda ósamstöðu íslenskra framleiðenda. Rifjum upp tvö nýleg dæmi.
Síðasta sumar stefndi í skort á lambahryggjum í landinu og hækka átti verð á lambakjöti. Innflutningsaðilar boðuðu innflutning á fínum hryggjum frá Ástralíu. Þá dúkkaði allt í einu upp einhver leynilager af íslenskum lambahryggjum. Lager sem átti að flytja úr landi á lægra verði en bauðst innlendum neytendum. Landbúnaðarráðherra breytti reglugerð hið snarasta til að leggja almennileg gjöld á erlendu hryggina svo neytendur myndu nú ekki njóta góðs af ódýrara kjöti. Hvar var samkenndin hjá kjötframleiðendum?
Innlendir grænmetisframleiðendur sem þiggja nú þegar mikla ríkisstyrki segjast geta aukið sína framleiðslu um 10-15% með litlum fyrirvara, en þá vilja þeir ódýrari orku á móti. Þá dregur úr umsvifum annars staðar í þjóðarbúinu. Í raun væri bara verið að flytja efnahagsumsvif frá einum stað til annars, en ekki stækka heildina. Einhvers staðar í heiminum kalla menn svona framkomu mútur. Hvar er samhugurinn hjá grænmetisbændum?
Seinna útspilið
Fjármálaráðherra dásamar krónuna og segir hana hafa gagnast vel nú þegar hún er að veikjast hratt. Veikingin mun valda enn meiri verðbólgu og hraða hringrásinni sem lýst var að ofan. Þetta eru stórhættuleg skilaboð frá ráðherranum um að fórna eigi miklu til að þóknast ferðaþjónustunni.
Veiking krónunnar veldur ekki bara eignatilfærslu í gegnum verðtryggð lán heldur líka í gegnum hærra verð á aðfluttri vöru og þjónustu. Greipar eru látnar sópa um vasa landsmanna og verðmæti færð yfir til ferðaþjónustunnar og stórríkrar útgerðar í gegnum verðminni krónu.
…og færa fé frá almenningi yfir til vildarvina Sjálfstæðisflokksins.
Það verður að segjast að Jóhannes niðurrífari, framvörður ferðaþjónustunnar, er að spila óvenju gott mót með Hræsnarasamtök atvinnulífsins sér að baki. Hann er með aðra krumluna ofan í miðjum ríkissjóði og hina í vasa almennings. Ég man ekki til þess að þessi forsöngvari Barlómakórs Íslands hafi verið lýðræðislega kosinn. Samt er hann með báðar hendur á stýri og Bjarni Ben er þjónandi farþegi.
Grunnur farsæls efnahagskerfis til skemmri og lengri tíma er að halda verðbólgu niðri. Margt annað dansar sjálfkrafa með. Þetta þekkja Þjóðverjar manna best. Fjármálaráðherrann sem nú liggur á hvolfi út í skurði vill fara í öfuga átt. Hann vill skapa glundroða, auka verðbólgu og færa fé frá almenningi yfir til vildarvina Sjálfstæðisflokksins.
Og ekki heyrist múkk frá Hræsnarasamtökunum sem settu allt á hliðina í fyrra þegar óskað var eftir launum sem nægðu út mánuðinn. Þá var öskrað og æpt að slíkt setti verðbólguna af stað. Já, hræsnarar verða alltaf hræsnarar.
Staða mála er svo alvarleg og forsendur svo illa brostnar að grípa verður strax til tveggja aðgerða. Fyrri aðgerðin er að taka krónuna af markaði. Sú seinni er að forseti landsins myndi þjóðstjórn strax og boði til kosninga í sumar vegna fordæmalausra aðstæðna. Ekki gengur að vanhæf ríkisstjórn ráðstafi hundruðum milljarða til sumra til að bjarga því sem ekki verður bjargað.
Ég kalla þetta þjófnað í björtu! Hluthafar landsins eiga nægt eigið fé til að spýta inn í reksturinn og fleyta honum áfram í gegnum vandræðin hafi þeir á annað borð trú á framtíð fyrirtækjanna. Hvað varðar fólk án atvinnu þá á að hefja greiðslu borgaralauna. Það upprætir fátækt, eflir sjálfbæran hagvöxt og lækkar kostnað við rekstur heilbrigðiskerfisins. Þannig að ríkið gæti endað með hagnað af aðgerðunum.