- Advertisement -

Fjármálaráðherra í handstýringu frá Borgartúni 35

…sat hann til borðs með Bjarna og hægeldaði töluna ofan í ráðherrann svo ekkert færi nú til spillis.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það liggur fyrir að fjármálaráðherra landsins er þjakaður af fordómum og hann er með afbrigðum ósanngjarn. Til aukreitis þá er ráðherrann ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni og eru nú margir bitlausir þar fyrir. Margir vissu þetta svo sem, en ráðherrann minnir okkur á þetta reglulega og það beint úr ræðustól Alþingis. Nýjasta áminningin um þetta er að ráðherrann heldur að 260 milljarðar króna séu tæplega 300 milljarðar. Þarna munar 40 milljörðum sem ráðherranum þykir vera svo mikið smotterí að hann rúnar upp í næsta hundrað. Orðrétt sagði hann í ræðustól „…. þrátt fyrir að ríkissjóður sé rekinn með 260 milljarða halla, tæplega 300 milljarðar halla á yfirstandandi ári“.  Til að setja þetta í samhengi þá er áætlað að 50 milljarðar fari í löggæslu á næsta ári.

Þessir 300 milljarðar koma beint frá Halldóri Benjamín hjá Samtökum atvinnulífsins. Hann básúnaði töluna þegar hann var með innantóma hótun um uppsögn Lífskjarasamninga. Í kringum fjaðrafokið þá sat hann til borðs með fjármálaráðherra og hægeldaði töluna ofan í ráðherrann svo ekkert færi nú til spillis. Sami Halldór Benjamín sagði líka að 600 milljarðar hyrfu úr hagkerfinu á næstu tveimur árum. Ráðherrann apaði þessa tölu einnig upp og sagði orðrétt „Það stefnir í næstum 600 milljarða halla á næstu tveimur árum“. Uppruni talnanna er hagspá samtakanna svona eins og hún sé heilagt plagg. Það vekur athygli að tölurnar eru apaðar upp þrátt fyrir að aðrar og hagstæðari hagspár liggi fyrir frá Seðlabankanum og Hagstofunni. Enn og aftur sýnir fjármálaráðherra landsins að hann er vond heimild og er svo komið að orð hans eru bitlaus. Það færi betur á því að báðir karlmennirnir segi okkur hvenær Hekla mun gjósa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: