- Advertisement -

Fjármálaráðherra með viðbrennslu

Tilsvör ráðherrans hafa ýmist verið vel innpökkuð lygi, rangfærslur byggðar á yfirgripsmikilli vanþekkingu eða innantómt hjal.

Jóhann Þorvarðarsson skrifar:

Bjarni Ben fjármálaráðherra landsins er uppsigað við Guðmund Inga Kristinsson þingmann Flokk fólksins, sem er duglegur að leggja fyrir ráðherrann spurningar. Tilsvör ráðherrans hafa ýmist verið vel innpökkuð lygi, rangfærslur byggðar á yfirgripsmikilli vanþekkingu eða innantómt hjal. Nú í vikunni bætti ráðherrann um betur og lagði til umræðunnar um kjör aldraðra illa samsetta viðbrennslu. Hún var látin flakka beint úr ræðustól Alþingis og ekki er laust við að ráðherrann hafi verið hýr á svipinn svo ánægður var hann með sín viðhorf til fátæktar.   

Guðmundur Ingi spurði „Eru allir aldraðir svo vel staddir að þeir þurfi ekki á neinni hjálp að halda? Er eðlilegt og sjálfsagt að ákveðinn hópur eldri borgara þurfi jafnvel að leysa út lyfin sín á raðgreiðslum?“. Ráðherrann tók sér stöðu við púltið og lét viðbrennsluna flakka „Við höfum verið með algerlega einstaka þróun á framlögum úr almannatryggingum á undanförnum árum sem hafa því næst sem tvöfaldast að raunvirði í útgreiðslu á fáum árum.“ Ráðherrann sleppti bara alveg að tala um hvort útgreiðslurnar dugi til mánaðarlegrar framfærslu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þið sjáið að myndin verður bara svartari.

Ég ákvað því að skoða málið fyrir hann og til einföldunar leit ég til eftirlaunaþega sem býr einn í leiguhúsnæði. Samkvæmt opinberum upplýsingum þá þarf þessi eftirlaunaþegi 348.048 krónur í ráðstöfunartekjur (e. skatta) á mánuði til að ná endum saman að jafnaði. Ekkert má út af bregða! Samkvæmt öðrum opinberum upplýsingum þá fær eftirlaunaþegi að jafnaði 267.781 krónur á mánuði frá almannatryggingum til ráðstöfunar. Við bætast 30.000 þúsund krónur í húsaleigubætur. Mánaðarlegur rekstrarhalli er því 50.265 krónur. Honum verður ekki mætt nema með því að neyta sér um lífsnauðsynjar eins og lyf, slá lán eða betla.

Þetta er staða eftirlaunaþegans að meðaltali. Svo er það hópurinn sem er langt undir meðaltalinu. Þið sjáið að myndin verður bara svartari. Hungurlúsin þrengir svo að þessum hópi að það sér í hvert rif. Mér var hugsað til þessa fólks þegar ráðherrann frumsýndi viðbrennsluna. Að hans sögn er ekki til meira fé handa þessu fólki sem stritað hefur alla sína ævi á mestu umbrotatímum Íslands fyrir sultarlaun.

Á sama tíma útdeilir ráðherrann beint úr ríkissjóði milljarðatugum til Bláa Lónsins, Kynnisferða, Íslandshótela, IKEA, Sjóklæðagerðarinnar, N1, Brimborgar og Össurar. Já, listinn er langur. Það er þó týra fram undan. Tími Bjarna Ben í stjórnmálum er uppurinn og stutt í kosningar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sögulegu lágmarki og flokkurinn margklofinn. Það er allt upp í loft í kringum formanninn.  Viðhorf Bjarna til fátæktar og gælugjafir til vildarfyrirtækja minna óneitanlega á söguna „Nýju föt keisarans“.  


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: