- Advertisement -

Fjörbrot hrokans

Jóhann Þorvarðarson:

Yfirlýsingar ráðherrans á fjölmiðlafundinum voru hrokafullar svo ekki sé meira sagt. Lýsir hún því yfir að þrátt fyrir u-beygjurnar þá muni hún við fyrsta tækifæri taka aftur upp Thatcherismann.

Fjörbrot hrokans

Liz Truss flutti í Downingstræti 10 með hrokann að vopni og þá ímynd að Margrét Thatcher, járnfrúin, væri hennar fyrirmynd. Frómur er frasi járnfrúarinnar „The lady is not for turning“. Eftir aðeins 40 daga í embættir þá hefur Liz áunnið sér  auknefnið „u-beygju drottningin“ og frasinn „The lady is for turning“ er við hæfi. Kaldhæðni örlaganna er að vont ástand í bresku hagkerfi í dag má að mörgu leyti rekja til Thatcherismans.    

Liz hefur þurft að éta ofan í sig hvert stefnumálið á fætur öðru sökum dómgreindarbrests hvaða úrræði hæfa ástandi breska hagkerfisins í dag. Fyrst afturkallaði hún ákvörðun um að afnema 45 prósent skatthlutfall á efnafólk. Síðan bar hún til baka áform um að lækka skatta á fyrirtæki og svo kom u-beygja um niðurskurð í almannaþjónustu. Til aukreitis þá segist hún núna vera tilbúin að leggja hvalrekaskatt á orkufyrirtæki til að að loka fjárlagagatinu. Sinnaskiptin eru ekki vegna hugljómunar á eigin vitleysu heldur er það öðru fremur almenningur og  fjármálamarkaðurinn, sem knýr umpólunina fram.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í öllu havaríinu er áhugavert að fylgjast með hegðun vaxta og gengi breska pundsins. Það fyrra hefur rokið upp og sett fjárhag heimila og lítilla fyrirtækja á hliðina. Ekkert léttmeti er á ferðinni enda hefur greiðslubyrði íbúðalána snarhækkað á sama tíma og ógreiddir orkureikningar hlaðast upp. Fallandi pundið setur mikinn þrýsting   á innflutningsverð og er ekki á mikla verðbólgu bætandi. Hvoru tveggja gæti kallað fram írafár á fasteignamarkaði með tilheyrandi afleiðingum.

Áhugavert er að skoða gang mála myndrænt. Við erum nefnilega að horfa upp á fjörbrot Liz Truss í embætti forsætisráðherra í beinni lýsingu. Myndin sem fylgir teiknar ávöxtunarkröfu 10 ára ríkisskuldabréfa fyrir og eftir undarlegan blaðamannafund Liz Truss rétt fyrir lokun markaða á föstudaginn.

12.10 2022. Þverstæðukenndar upplýsingar koma frá Liz um fjárlagagatið og útgjöld til velferðarmála. Vextir halda áfram að hækka og toppa í 4,61 prósenti. Um svipað leyti koma yfirlýsingar frá fjármálaráðherra, Kwasi Kwarteng, um að ríkisstjórnin ætli að falla frá lækkun skatta á fyrirtæki og leggja á hvalrekaskatt á olíufyrirtæki. Markaðurinn tekur tíðindunum vel og vextir stefna suður.

13.10 2022. Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra, er kallaður óvænt heim af fundi í Washington borg. Hann ferðast með næturflug til Bretlands. Vextir halda áfram að lækka. Aukinnar bjartsýni gætir um að breska skútan breyti um stefnu.

14.10 2022. Við heimkomuna þá er Kwarteng rekinn úr embætti fjármálaráðherra og vextir halda áfram að lækka. Liz heldur síðan sérkennilegan blaðamannafund þar sem eingöngu þrjár spurningar úr sal eru leyfðar. Tvær grímur renna á flesta.

Yfirlýsingar ráðherrans á fjölmiðlafundinum voru hrokafullar svo ekki sé meira sagt. Lýsir hún því yfir að þrátt fyrir u-beygjurnar þá muni hún við fyrsta tækifæri taka aftur upp Thatcherismann. Um leið ásakar forsætisráðherrann fjármálamarkaðinn um að vera ekki á tánum og undir það búinn að ríkisstjórnin færi bratt í málin. Sem sagt, fíflunum fjölgar í kringum Liz.

Eftir fundinn þá héldu vextir áfram upp á við eins og myndin sýnir. Heimili og fyrirtæki blæða vegna skemmdarverka ríkisstjórnar Liz. Hafin er því leit að nýjum leiðtoga Íhaldsflokksins. Útför ríkisstjórnar Liz Truss verður auglýst síðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: