- Advertisement -

Fjórskipting en ekki þrískipting valds

Jóhann Þorvarðarson:

Seðlabanki Íslands húrraði stýrivöxtum niður í sögulegt íslenskt lágmark og narraði þar með þúsundir heimila til að kaupa eigin íbúð með skuldsetningu.

Stjórnarskrá Íslands kveður á um þrískiptingu valds: löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Raunveruleikinn er annar því Seðlabanki Íslands fer með fjórða valdið, peningavaldið. Þar starfa ólýðræðiskjörnir yfirmenn eins og dómarar eru við dómstóla. Bankinn og dómstólarnir lúta síðan engu utanaðkomandi aðhaldi. Þarf inngrip Alþingis ef eitthvað fer úrskeiðis. Spilling getur því grasserað án þess að fólkið fái rönd við reyst.

Á sama hátt og dómstólar geta gripið inn í líf fólks með dómum þá hafa ákvarðanir Seðlabanka Íslands einnig áhrif á aðstæður einstaklinga, fjárhagsstöðuna. Sérstaklega aðila sem hafa skuldsett sig. Sem dæmi þá hefur fasteignamarkaðurinn verið á suðupunkti í kóvít-19 faraldrinum. Seðlabanki Íslands húrraði stýrivöxtum niður í sögulegt íslenskt lágmark og narraði þar með þúsundir heimila til að kaupa eigin íbúð með skuldsetningu. Verðbólga rauk upp í kjölfarið og hækkaði verðtryggðar skuldir. Eigið fé íbúðarhúsnæðis rýrnaði að öllu öðru óbreyttu. Þetta er ígildi eignatilfærslu frá skuldara til lánara og gríðarlegt hagsmunamál á ferðinni.

Eftir stutta kjallaradvöl stýrivaxta þá er bankinn byrjaður á vaxtahækkunum, sem breytir fjárhagslegum forsendum sem lágu til grundvallar fasteignakaupunum. Þeir sem eru með breytilega vexti verða strax fyrir áhrifum á meðan aðilar með fasta vexti eru í vari þar til tímabil festingar rennur út. Vaxtaákvarðanir, sem og aðrar ákvarðanir bankans, eru því inngrip inn í fjárhag einstaklinga, heimila. Það er ekki án ástæðu sem talað er um skuldafangelsi!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Davíð:

Þeir sem bera ábyrgð á ákvörðunum Seðlabankans eru skipaðir til fimma ára í senn og eru ósnertanlegir á ráðningartímanum nema Alþingi grípi inn í samanber þegar Davíð Oddsson neitaði að víkja sem seðlabankastjóri þó svörtuloft væru hrunin yfir hann.

Þeir sem bera ábyrgð á ákvörðunum Seðlabankans eru skipaðir til fimma ára í senn og eru ósnertanlegir á ráðningartímanum nema Alþingi grípi inn í samanber þegar Davíð Oddsson neitaði að víkja sem seðlabankastjóri þó svörtuloft væru hrunin yfir hann. Þannig að staða yfirmanna bankans er um margt eins og staða dómara.

Þar sem mikil umræða hefur átt sér stað um nýja stjórnarskrá á umliðnum árum þá sakna ég þess að staða Seðlabankans hafi ekki verið rædd í tengslum við vinnu við nýja stjórnarskrá. Legg ég því til að gerð verði hér bragabót og staða bankans skilgreind í stjórnarskrá og opnað á möguleikann að seðlabankastjóri verði kosinn af þjóðinni í beinni kosningu. Sama ætti auðvitað að eiga við um dómara. Síðan má taka þetta lengra og kjósa Umboðsmann Alþingis í beinni kosningu. Þetta flokkast undir beint lýðræði og þurrkar út pólitíska spillingu í kringum þessi mikilvægu embætti. Enginn stjórnmálaflokkur er með stefnu í þessum anda.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: