- Advertisement -

Flá ber feita gelti

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Árangursríkir samningar Eflingar við borgina eru kjarki og vilja Sólveigu Jónsdóttur að þakka. Engum öðrum.

Það hefur lengi verið vitað að forysta ýmissa launþegahreyfinga maki krókinn. Eru á kjörum sem þau fengju aldrei á hinum almenna vinnumarkaði ef mið væri tekið af hæfni og baráttuþreki. Síðan eru vinnuaðstæður hjá slektinu eins og hjá kóngafólki. Forystan deilir ekki kjörum með félagsmönnum sem borgar klaninu háu launin.

Fyrrverandi formaður ASÍ var á forstjóralaunum án þess að skila eftirtektarverðum árangri. Var í einstaklega góðu vinfengi við forystu atvinnulífsins og allir voða jolly. Þess vegna var hann kosinn í burtu og Drífa Snædal tók við.

Miklar vonir voru bundnar við Drífu, en hvaða árangri hefur hún náð? Lífskjarasamningar náðust fyrst of fremst vegna baráttu Sólveigar og Ragnars Þórs. Án tvímenninganna þá hefðu samningarnir hvorki verið fugl né fiskur. Jafnvel ekki síli. Árangursríkir samningar Eflingar við borgina eru kjarki og vilja Sólveigu Jónsdóttur að þakka. Engum öðrum. Drífa, og annað forystufólk, er lokað inn á sínum kontór að skrifa sína föstudagspistla með rándýra tölvuskjái fyrir framan sig.

Sólveig lækkaði eign laun til að nálgast sína umbjóðendur.

Sólveig er annarrar gerðar. Mætti á vinnustaði og ræddi við sína umbjóðendur, gekk fremst í kröfugöngum svo eftir væri tekið. Skipulagði vinnustöðvanir sem skiluðu árangri. Setti fram réttlátar kröfur, sem reyndust samt ekki vera meiri en svo að skjólstæðingar næðu endum saman. Eitthvað sem foyrustufólk launþega hefur aldrei þurft að hafa áhyggjur af. Enda býr það í bómullarhnoðrum eins og feitir geltir á ofurfóðringu. Sólveig lækkaði eign laun til að nálgast sína umbjóðendur. Gat ekki farið neðar en hún gerði því þá væri hún ekki með hæstu launin á skrifstofu Eflingar. 

Það er því hryggilegt að verða vitni að því þessa dagana að sjá forystufólk, sem engum árangri hefur náð, tala um hvern annan þveran að mikilvægasta fólkið séu þeir sem sitja á skrifstofum launþegahreyfinga. Slá þurfi skjaldborg utan um það. Já fólkið þar sem enginn er með undir 700 þúsund krónur í laun á mánuði burt séð frá getu og menntun.

Þetta er allt öfugsnúið því mikilvægasta fólkið eru félagsmennirnir sem greiða félagsgjöldin. Það heldur hreyfingunni gangandi. Burðarás nútíma kjarabaráttu á Íslandi er án nokkurs vafa hún Sólveig Jónsdóttir. Svo árangursdrifin er hún að Gvendur Jaki væri stoltur af því að vera jafnað við Sólveigu. Vonandi stofnar Sólveig nýja hreyfingu eða að hún bjóði sig aftur fram því feitir geltir hlaupa hægt. Engin manneskja er betri fulltrúi litla mannsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: