- Advertisement -

Flónshausar víkja ekki af vettvangi

Jóhann Þorvarðarson:

Það myndi því án vafa auka trúverðugleikann í baráttunni við mikla verðbólgu og háa vexti ef helgu mennirnir yfirgæfu hagstjórnarsviðið. Flónshusarnir skulda þjóðinni að hverfa á braut.

Tveir mestu uppklapparar íbúðarkaupa eru postularnir tveir við Arnarhól. Þeir predikuðu nefnilega að Ísland væri orðið að lágvaxtalandi sökum þess að þeir væru framúrskarandi hagstjórnarkarlar. Svo drjúgir með sig eru þessir helgu menn að þeim dettur ekki í huga að víkja af vettvangi verðbólguelds og hárra vaxta heldur ætla þeir sjálfir að halda utan um brunaslöngurnar. Það verður dýrkeypt.

Nú hefur Seðlabankapostulinn skrifað ný ritningarorð þar sem skuldugir íbúðarkaupendur eru hvattir til að lengja í lánum eða að gangast undir blóðug verðtryggð lán. Hvoru tveggja gerir íbúðarkaupin miklu dýrari en lagt var upp með og mun það valda lægri framfærslutekjum þegar á efri ár er komið. Með ritningunni þá ætlast Seðlabankapostulinn til þess að skuldug heimili axli hans eigin ábyrgð á ástandinu. Ódrengskapur er orð sem mörgum gæti dottið í hug og það með réttu.

Postulinn í svörtuloftum hefur bætt um betur og fer enn eina ferðina út fyrir starfssvið sitt til að fullnægja athyglissýki sinni með viðtali hjá Mogganum. Hann telur sig geta sett forystufólki launþegahreyfinga lífsreglurnar í komandi kjarasamningum. Segir postulinn að ákvörðun um að laun embættismanna hækki ekki um meira en 2,5 prósent sé nýtt viðmið sem ber að fara eftir. Hann virðist ekki átta sig á því að 2,5 prósent hækkun á  há mánaðarlaun er miklu meira í krónum talið en fæst fyrir sömu prósentuhækkun hjá láglaunafólki. Fólkið mun auðvitað ekki láta þennan flónshaus ráða för þegar kjarakröfur eru mótaðar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo er það postulinn í fjármálaráðuneytinu, sem selur pabba sínum ríkisbanka á tombóluverði og öðrum aðilum ríkiseignir fyrir slikk samanber Lindarhvolsmálið, sem ekki má ræða. Hann er algjörlega ófær um að grípa til ráðstafana sem duga í glímunni við verðbólguna eins og skáldlegar fjármálaáætlanir hans staðfesta. Eftir að hafa aðstoðað fyrirtæki í landinu ríkulega á tímum heimsfaraldurs þá má ekki aðstoða lágt launuð heimili nema um agnar ögn. Nei, skríllinn skal éta það sem úti frýs ef betri tugga fæst ekki. Nú hefði verið ágætt að eiga fé í handraðanum ef ríkiseignir hefðu verið seldar á raunvirði í stað gjafvirði.

Postularnir tveir eru ábyrgir fyrir stöðunni sem meðfylgjandi mynd endurspeglar. Það myndi því án vafa auka trúverðugleikann í baráttunni við mikla verðbólgu og háa vexti ef helgu mennirnir yfirgæfu hagstjórnarsviðið. Flónshusarnir skulda þjóðinni að hverfa á braut.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: