- Advertisement -

Fólki þykir Ísland vera of dýrt

Efst til vinstri eru hjón frá York á Englandi, þá tveir herramenn sem búa í næsta nágrenni við Windsorkastala, þá hjón frá Póllandi og svo Finni.

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:

Eftir að hafa hlustað á Kastljósið, þar sem fjalla var um samdrátt í ferðaþjónustu, rifjast upp mörg samtöl við fólk í öðrum Evrópulöndum. Í vetur sem leið vorum við á Spáni. Við spiluðum golf við fjölda manns frá mörgum Evrópulöndum. Samdóma álit þeirra allra, sem á annað borð töluðu um Ísland að verðið hér væri allt of hátt.

Fólkið kom frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Englandi, Wales, Írlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Sviss, Hollandi, Belgíu, Póllandi og Spáni. Held ég að ég sé ekki gleyma neinni þjóð.

Þessi fíni matur kostar trúlega ámóta mikið og hálft brauð, kæfa og kók í Bónus, sem er samt Íslands ódýrasta búð.

Þau sem höfðu komið til Íslands töluðu meira um verðlagið en náttúruna eða fegurð landsins. Flest sögðust hafa neyðst til að kaupa sér brauð og álegg í Bónus. Sum sögðu að brauð, pate og drykkjarföng þar kostuðu samt meira en indælis máltíð á veitingahúsi í þeirra heimalandi. Fólk stundi undan tilhugsuninni um verðið á Íslandi.

Hin, sem ekki höfðu komið til Íslands, en langaði að koma veigruðu sér við því. Þau töluðu mikið um hvað allt var dýrt. Við vorum margsinnis beðin um að segja hversu margar evrur hitt og þetta kostaði. Við reyndum hvað við gátum og fólk ýmist dæsti eða hristi höfuðið.

Ég held að það sé sama hvað við hugsum og höldum. Við erum einfaldlega að verðleggja okkur frá ferðavæntingum fólks. Um það eigum við að tala.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: