- Advertisement -

Forðast gullnu spurninguna

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þegar verðbólga fór á skrið á Íslandi í upphafi kóvít-19 faraldursins þá var verðstöðnun, ef ekki hjöðnun, allt í kringum okkur. Til afsökunar þá sagði Seðlabankinn að það væri launþegum að kenna. Gerðir hefðu verið of góðir kjarasamningar. Ásökunin var fljótt skotin niður enda sögðu mælingar Hagstofunnar aðra sögu. Þá sagði Seðlabankinn að veiking krónunnar væri orsökin. Þessi útskýring hélt heldur ekki vatni og ákvað bankinn þá að ráðast á borgarstjórann. Sagði borgina ekki brjóta upp nægilega mikið land fyrir nýbyggingar og væri það að keyra fasteignaverð upp. Eins og hinar gaslýsingarnar þá stóðst þetta ekki skoðun enda gekkst einn nefndarmanna peningastefnunefndar við rangfærslunni, samanber grein Gylfa Zoega í Vísbendingu.

Seðlabankinn er kominn í hring og beinir nú spjótunum aftur að launþegum. Krefur þá um hófsemi í komandi kjarasamningum á sama tíma og bankinn veður í vasa heimilanna með stöðugum vaxtahækkunum. Blessunarlega þá hlustuðu launþegar ekki á kröfugerð bankans í faraldrinum því það var einmitt innlend einkaneysla sem hélt dampinum uppi í hagkerfinu. Af orðum tveggja forystumanna launþega þá verður heldur ekki hlustað á bankann að þessu sinni og kaupmáttarskerðingarnar sóttar til baka við gerð kjarasamninga. Þetta er einfalt merki um að Seðlabankinn hafi tapað eigin trúverðugleika.

Í dag þá telur Seðlabankinn að verðbólgubálið sé Úkraínustríðinu að kenna, en það er ekki nema hluti af skýringunni. Röskuð vörukeðja í Austur Asíu af völdum veirunnar er enn til staðar og veðuröfgar valda enn uppskerubresti víða um veröldina. Skortur er því á ýmsum sviðum og seytlast áhrifin inn í verðlagið í dag af meiri þrótti en áður.

Sú árátta Seðlabankans að kenna sífellt öðrum um frekar en sjálfum sér er eins og ég hef áður sagt efnahagsvandamál af dýrustu sort. Í stað afneitunar á eigin hagstjórnarmistökum þá ætti Seðlabankinn að beina athyglinni að gullnu spurningunni. Af hverju þurfa Íslendingar að greiða miklu hærri vexti en tíðkast í kringum okkur? Á myndinni sem fylgir þá ber ég saman stýrivexti nokkurra landa, sem eru með álíka ársverðbólgu og Ísland nú um stundir. Ísland trónir yfir öðrum löndum og bera íslensk heimili þann þunga. 

Í gær urðu þau stórtíðindi að bandaríski Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um hálft prósentustig og standa þeir nú í einu prósenti. Svo mikil hækkun hefur ekki átt sér stað síðan um aldamótin. Sama dag þá hækkaði Seðlabanki Íslands vextina um 1 prósentustig og eru þeir þá komnir í 3,75 prósent. Seðlabanki Íslands hefur gefi út að fleiri vaxtahækkanir séu í farvatninu og tel ég að þeir fari upp undir 6 prósent á næstu mánuðum eða misserum. Þessar tölur sýna hversu dýrt ævintýri það er fyrir heimilin og fyrirtæki að Ísland haldi úti eigin smámynt. Þið sjáið á myndinni að evrulandið Þýskaland er með 0% prósent stýrivexti á sama tíma og verðbólgan er hærri þar í landi. Í Þýskalandi þá hafa kjarasamningar verið hóflegir um langt árabil enda geta launþegar og fyrirtæki gengið að því vísu að ekki er verið að fara bakdyramegin í budduna með sífelldum vaxtahækkunum. Verðbólga hefur fyrir vikið verið vel tamin um langt árabil.  

Á næstu misserum þá verður gullna spurningin álíka ágeng og hún var í fjármálahruninu því íslensk verðbólga mun taka fram úr verðhækkunum í kringum okkur samkvæmt minni spá. Forskotið má að hluta til þakka sífelldum stýrivaxtahækkunum Seðlabanka Íslands enda fara þær beint út í verðlagið, þrátt fyrir vonir um annað.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: