- Advertisement -

Fornöld Fréttablaðsins

Varast ber að hlusta eftir boðskap Fréttablaðsins og Samtaka atvinnulífsins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Fréttablaðið segir regluega að ef vinna eigi bug á atvinnuleysinu þá verði störfin að verða til hjá einkageiranum, en ekki hjá hinu opinbera. Svona eins og að hið opinbera hafi ekkert jákvætt fram að færa þó það þjóni atvinnulífinu myndarlega. Reglulega les maður á síðum blaðisins þann boðskap að ríkið verði að halda í við sig og jafnvel skera niður í útgjöldum. Viðhorf blaðsins endurómar úreltan boðskap Samtaka atvinnulífsins enda stefna vel reknar þjóðir í andstæða átt. Ekki þarf að líta nema fáein ár til baka til að sjá að boðskapurinn virkar ekki. Hann er dýrari fyrir samfélagið. Í kjölfar fjármálahrunsins fyrir tólf árum þá var hin almenna lína í heiminum að ríkið ætti að skera niður og halda sig til hlés. Eftirláta átti einkageiranum að skapa störfin. Aðferðin mistókst, hún er gjaldþrota. Leiddi hún til langvarandi og mikils atvinnuleysis vítt og breitt um veröldina. Hliðaráhrif, og ekki síður alvarleg, var vaxandi borgaralegur órói. Samheldni sumra þjóða minnkaði, lýðræðið varð víða fyrir árás. Safnheiti yfir þetta úrelta viðhorf er „austerity“ og er það skammaryrði í dag.

Sú leið sem Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn boðaði strax í upphafi faraldursins var að stjórnvöld ættu að gera meira en minna þegar kom að bæði ríkisútgjöldum og opinberri fjárfestingu. Opinberir aðilar eiga ekki að halda aftur af sér og alls ekki að draga úr stuðningsaðgerðum of snemma. Áherslan var að standa vörð um þá sem lakast standa í samfélögum. Vel rekin ríki fylgja þessari stefnu án þess að það hafi kallað á skattahækkanir eða verðbólgu svo einhverju nemi. Stuðst hefur verið við skuldasöfnun og peningaprentun. Ísland er þó þar undantekning og hefur stefnunni verið fylgt með hangandi hendi. Hér á landi þá er atvinnuleysi miklu hærra en í kringum okkur og verðbólga margföld.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Starf er starf.

Bandaríkin hafa gengið hvað lengst í að fylgja stefnu sjóðsins og náð eftirtektarverðum árangri. Atvinnuleysi er komið niður í 6,3 prósent á sama tíma og það er að slá í 13 prósent á Íslandi. Verðbólga í Bandaríkjunum er 1,4 prósent á meðan hún er 4,3 prósent á Íslandi. Þessar tvær hagstærðir segja í raun allt sem segja þarf. Á Íslandi er óstjórn. Ólíkt boðskap Fréttablaðsins og Samtaka atvinnulífsins þá hafa bandarísk stjórnvöld óhikað gripið til mjög mjög bólginna aðgerða á útgjalda hliðinni og safnað skuldum. Fyrir faraldurinn þá voru skuldir ríkisins þar vestra yfir 100 prósentum af landsframleiðslu á meðan hlutfallið var í kringum 37 prósent á Íslandi. Þetta hindrar bandarísk stjórnvöld samt ekki í að gefa enn frekar í. Þar gera menn sér grein fyrir að „austerity“ eða að gera of lítið muni verða dýrara á endanum fyrir bandarískt samfélag og atvinnulíf.

Varast ber að hlusta eftir boðskap Fréttablaðsins og Samtaka atvinnulífsins. Aðilarnir eru fastir í forneskjulegum viðhorfum. Almennt þá hafa þjóðir ekki áhyggjur af því nú um stundir hvort störfin verða til hjá hinu opinbera eða einkageiranum. Starf er starf. Þegar búið er að vinna bug á efnahagslegum afleiðingum Kóvít-19 veirunnar þá er hægt að ræða aukaatriði dagsins hvort hið opinbera er of umfangsmikið eða ekki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: