- Advertisement -

Framherji ítrekar rangfærslur

Stefna sem margir kalla ofbeldi, glæp og þrælabúðir með samþykki ríkisstjórnarinnar.

 

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

 

Hinn stóri og stæðilegi framherji ferðaþjónustunnar, Jóhannes Þór Skúlason, fór mikinn í vikublaði Mannlífs 8. mars og aftur í Morgunútvarpi Rásar 2 mánudaginn á eftir. Honum líst illa á launakröfur launþega. Telur hann farsælast fyrir ferðaþjónustuna að halda í núverandi láglaunastefnu atvinnurekenda. Stefna sem margir kalla ofbeldi, glæp og þrælabúðir með samþykki ríkisstjórnarinnar. Og ekki af tilefnislausu. Úrvinda launþegar, mest konur, sækja orðið í stórauknu mæli á náðir VIRK til að bjarga sjálfum sér frá ævarandi heilsuleysi.

 

Það kemur engum á óvart að framherjinn dragi upp svartar myndir í anda einkennissöngs atvinnurekenda, sjálfan Barlóminn.

Allt er þetta til að hræða og skelfa hina fátæku sem vilja bjarga sér í anda sjálfstæðisstefnunnar. Það sem kemur hins vegar á óvart er að ítrekað styðst framherjinn við falsrök og skrumskælir opinberar upplýsingar. Af óútskýrðum ástæðum hefur fjölmiðlafólk látið vitleysuna fara ósíaða í gegn. Af þessum tilefni er rétt að skoða nokkrar rangfærslur barlómans í annað sinni:

1.

Fullyrt var að tekjur ferðaþjónustunnar hafi dregist saman. Opinberar upplýsingar segja að tekjur ferðaþjónustunnar jukust 20% á umliðnum tveimur árum sem telst mjög mikið. Fullyrðingin dæmist því röng.

2.

Lýst var yfir að krónan væri áhyggjuefni þar sem tekjur ferðaþjósnustunnar séu mikið í erlendum gjaldeyri. Síðustu tvö ár hefur króna veikst um 10-18% gagnvart helstu viðskiptalöndum ferðaþjónustunnar. Veikingin kemur ferðaþjónustunni mjög vel og ætti því að vera fagnaðarefni. Áhyggjurnar eiga ekki rétt á sér.

3.

Sveiflur í krónunni eru sagðar áhyggjuefni. Eigin útreikningar sýna að sveiflan hefur verið mjög lítil undanfarin mörg ár. Þannig að áhyggjurnar eru óþarfar.