- Advertisement -

Fréttablaðið, LV og seðlabankastjóri

Fagmennsku er bara  hent út um gluggann. Efnistök verða ómálefnaleg og áróðri að bráð.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þegar kemur að Lífeyrissjóði verslunarmanna (LV) og nýafstöðnu hlutafjárútboði Icelandair þá er eins og eigendur Fréttablaðsins og tveir viðskiptablaðamenn þess verði hreint stjórnlausir. Fagmennsku er bara  hent út um gluggann. Efnistök verða ómálefnaleg og áróðri að bráð. Mikið plássi hefur síðan farið undir árásir á Ragnar Þór Ingólfsson og stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) vegna tjáningar stjórnarinnar. Við skoðun á eigendahópi Fréttablaðsins þá situr þar á bekk stór hluthafi sem er fyrrum formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Lestur gamalla dagblaða segja að sami maður hafi verið vændur um að nýta sér innherjaupplýsingar í hagnaðarskyni. Þessi sami aðili er síðan hluthafi í Bláa lóninu, sem á mikið undir að ferðaþjónustan og Icelandair taki við sér.

Fréttablaðið hefur óvenju greiðan aðgang að seðlabankastjóra landsins, Ásgeiri Jónssyni. Á skömmum tíma hafa tvö breiðsíðuviðtöl við þennan fyrrum stjórnanda hjá spilavítinu Kaupþingi birst á síðum blaðsins. Í dag var síðan umfjöllun í blaðinu hvort fjármálaeftirlit bankans væri að skoða ákvörðun lífeyrissjóðsins um að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Blaðið spurði skriflega á dögunum hvort ákvörðunin félli að tilteknum viðmiðum eftirlitsins. Þessi umfjöllun birtist sama dag og Seðlabankinn upplýsir almenning í fyrsta sinn um að slík athugun sé í gangi og snúi að öllum lífeyrissjóðum landsins. Samhliða þá vill Seðlabankinn takmarka stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi aðila sem tilnefna í stjórnir lífeyrissjóða. Augljóst er að Fréttablaðið fékk upplýsingar um þessa athugun á undan öðrum (leki) og er það andstætt lögum um varnir gegn dreifingu innherjaupplýsinga. Má í þessu sambandi benda á nýjan leka á dögunum um að alþjóðlegir bankar hafi í umvörpum þvegið illa fengið fé. Upplýsingarnar leiddu til mikilla verðlækkana á hlutabréfum í bönkum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég tel áríðandi að hafin verði rannsókn á nánum tengslum Fréttablaðsins við seðlabankastjóra! Augljósir hagsmunaárekstrar eru hér til staðar þar sem umræddur eigandi Fréttablaðsins getur notið góðs af upplýsingum úr óbirtu viðtali eða svari. Vaknar þá spurning hvort Ásgeir ætlar að rannsaka sjálfan sig?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: