- Advertisement -

Fréttablaðið messar yfir Akureyringum

Á leiðarasíðu Fréttablaðsins er Akureyringum sendur tóninn:

„Bærinn sem hætti að stækka Íslendingar þurfa á því að halda að eiga aðra borg í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík. Þótt Akureyri sé ef til vill enn þá höfuðstaður Norðurlands virðist hún vera að staðna bæði í vexti og þroska og er að hrökkva niður í fimmta sæti yfir fjölmennustu þéttbýlisstaði landsins. Reykjanesbær virðist hafa meira aðdráttarafl með verksmiðjurnar sínar en Akureyri sem þó hefur fallegt umhverfi, góða þjónustu, háskóla og hreppafluttar ríkisstofnanir. Hvers á Akureyri eiginlega að gjalda?

Það hefur lengi loðað við Akureyri að aðkomumenn eigi þar erfitt uppdráttar. Þeir aðlagist ekki samfélaginu, kynnist ekki heimamönnum og fyrirtæki þeirra fari lóðbeint á hausinn gerist þeir svo bíræfnir að ætla sér að eiga viðskipti við heimamenn. Kannski er þetta mýta en eftir því sem Akureyri fellur niður um fleiri sæti á fólksfjöldalista íslenskra þéttbýlisstaða, þeim mun meira knýjandi verður heiðarleg naflaskoðun íbúa höfuðstaðar Norðurlands. Eru aðrir en hreinræktaðir Akureyringar bara ekki velkomnir til langdvalar? Og er Akureyri ekki of stór og of mikill höfuðstaður til að haga sér eins og lítið sjávarþorp sem kennir utanbæjarmönnum um allt sem miður fer?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: